Baldwin er ekki einn ákærður heldur einnig Hannah Gutierrez Reed sem var vopnavörður myndarinnar og átti að sjá til þess að engar byssukúlur væru í þeim skotvopnum sem notuð voru í tökunum. Baldwin hefur ávallt haldið því fram að um slys hafi verið að ræða og að hann hafi ekki tekið í gikkinn.
Í ákærunni segir að Baldwin hafi meðal annars sleppt því að fylgjast með á námskeiði um hvernig ætti að meðhöndla skotvopn, hann hafi frekar verið í símanum að ræða við fjölskylduna sína. Þá hafi hann ekki séð til þess að vopnavörðurinn afhenti honum skotvopnið heldur fékk hann það frá aðstoðarleikstjóra myndarinnar.
Þegar Baldwin miðaði byssunni í átt að Hutchins braut hann mikilvægustu öryggisreglu skotvopna, sem er að miða aldrei skotvopni í átt að manneskju, sama hvort það sé hlaðið eða ekki. Samkvæmt ákærunni hefur Baldwin leikið í fjörutíu kvikmyndum þar sem skotvopn voru meðhöndluð og því hafi þetta átt að vera honum ljóst.
Verði Baldwin og Reed dæmt gætu þau átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisvist.