Það gerir hann í samtali við Frosta Logason, í hlaðvarpi Frosta sem finna má á brotkast.is. Gunnar Smári hefur nú tekið til óspilltra málanna við að stofna flokksmiðil, Samstöðina, sem meðal annars er rekinn fyrir fé sem til komið er vegna ríkisstyrkja til Sósíalistaflokksins. „Þetta er ekki málgagn Sósíalistaflokksins, þetta er sósíalísk stöð,“ sagði hann.
Flokksblöðin áður mikilvægur þáttur spillingar og misréttis
Þetta má heita umturnun á fyrri afstöðu sem var býsna eindregin. Fyrirferð Gunnars Smára á fjölmiðlamarkaði hefur verið meiri en nokkurs annars ef litið er til undanfarinna áratuga og jafnvel þó lengra sé leitað. Í nærmynd tímaritsins Frjálsrar verslunar sem gefið var út 1.10.2003 er yfirskriftin: Dagblaðagúrúinn Gunnar Smári. Þar segir að með yfirtöku Fréttar ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins á útgáfu DV hafi Gunnar Smári Egilsson ritstjóri skipað sér á bekk með áhrifamestu fjölmiðlamönnum á Íslandi. Ekki sé fráleitt að tala um hann sem „fjölmiðlamógúl“.

Í gegnum tíðina, en Gunnar Smári á að baki langan feril í blaðamennsku og sem ritstjóri á frjálsum markaði, hefur Gunnar Smári tjáð sig um þann skaðvald sem flokksblöðin máttu heita í hans bókum. Enda væri annað beinlínis sérkennilegt með mann sem hefur sagt sig lærisvein Jónasar Kristjánssonar heitins, ritstjóra DV sem keyrði á slagorðinu: Frjálst og óháð. Fljótlegur uppsláttur á timarit.is býður uppá eitt dæmi um slíkt.
Í leiðara tímaritsins Heimsmynd, sem Gunnar Smári ritstýrði um tíma, skrifar hann leiðara um Vilmund Gylfason. Þetta er 1. júlí 1993 og þar víkur Gunnar Smári að flokksblöðum í framhaldi af orðum um ógnartak hins svokallaða fjórflokks á samfélaginu; hvað varðar allar stöðuveitingar, banka og opinbera sjóði, samkvæmt óskrifuðu kvótakerfi: „Saman stjórnuðu þeir öllum fjölmiðlum landsins, annars vegar í gegnum flokksblöð og hins vegar í gegnum ríkisfjölmiðla, og höfðu þar með algert vald yfir allri opinberri umræðu í samfélaginu. Eins og í Sovét fól þetta kerfi í sér spillingu og misrétti.“
Fleiri dæmi í skrifum Gunnars Smára um meinsemd flokksblaðanna mætti án vafa finna ef að er gáð.
Mogginn drottnaði yfir Reykjavík
Gunnar Smári hefur nú breytt um skoðun, vegna breyttra aðstæðna og fer yfir það í sögulegu samhengi í viðtali við Frosta:
„Þegar ég kem inn í blaðamennsku þá er það á tíma þegar blöð eru að verða fjárhagslega sterk. Það er tengt uppgangi millistéttarinnar á Vesturlöndum, fólk að flytja úr sveit í borg og það býr til massamarkað,“ sagði hann. Það hafi þurft stað til að auglýsa ísskápa til sölu og fleira í þeim dúr, útvarp og sjónvarp á þeim tíma hafi verið takmörkuð gæði.
Stór blöð hafi svo búið til fákeppni. „Sá sem er stærstur á markaði er með hlutfallslega ódýrari dreifingu, því hann fer í annað hvert hús á meðan þú ferð í fjórtánda hvert hús og fær hundrað sinnum fleiri auglýsingar á fimm sinnum hærra verði. Getan færist yfirleitt yfir á einn. Mogginn drottnaði yfir Reykjavík. Aftenposten yfir Osló.“
Á sjöunda áratugnum hafi myndaðist sú hugmynd að blöð ættu að veita almannaþjónustu. „Það er byrjað að falla um 1990. Margir halda að þetta sé blaðamennskan en þetta er bara örlítið brot í sögu blaðamennskunnar,“ sagði hann.
Píratar bíða og vona að Kastljós hringi
Frosti spurði hvaðan flokksblöðin hér á landi hafi komið. Alþýðublaðið var málgang Alþýðuflokksins, Tíminn fyrir Framsóknarflokkinn, Morgunblaðið fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Þjóðviljinn fyrir Alþýðubandalagið. „Það er ekki tengt þessu,“ svaraði Gunnar Smári.

„Þegar Alþýðusambandið er stofnað, þá gera þau tvennt á sama tíma, stofna stjórnmálaflokk til að vera stjórnmálaarm verkalýðshreyfingarinnar og Alþýðublaðið, því þú getur ekki haft stjórnmálaafl nema vera með málgagn. Það eru rætur flokksblaðanna.“
Á þeim tíma, upphafsárum verkalýðsbaráttunnar, hafi verið nauðsynlegt að koma á fót málgagni. „Núna, í dag, þá eru flokkarnir eins og Píratarnir bara að vona að Kastljós hringi í þá eða eitthvað. Þú getur ekki lifað,“ sagði hann. Flokkarnir þurfi að skapa sér svona vettvang aftur.
Aðrir flokkar nenna þessu ekki
„Ég held að það hafi verið ótrúleg mistök á tíunda áratugnum, þegar nýfrjálshyggjan og Davíð Oddsson og félagið, nörruðu þá eiginlega til að hætta. Þessi hugmynd að flokksblöð væru úrelt. Ég held að þetta sé eitt mikilvægasta atriði í hrörnun flokkanna, þegar þeir gáfu frá sér blöðin,“ sagði Gunnar Smári.
Ritstjórnir hafi verið sjálfvirk jarðtenging forystu flokkanna. „Svo sleppir þeir þessu og þá byrja forystur flokkanna að svífa og verða lost in space,“ sagði hann. Fleiri flokkar eru með hlaðvörp, hann gefur ekki mikið fyrir það, það sé í raun áróður. „Þau eru alltaf að tala við sjálfan sig. Sigmundur Davíð [Gunnlaugsson formaður Miðflokksins] er með eitthvað þar sem hann talar bara við hinn þingmanninn. Sjálfstæðisflokkurinn er með ungliða, sem eru á launum, starfsfólk þingflokksins sem eru á launum hjá okkur skattgreiðendum, er að tala við þingmenn og borgarfulltrúa.“
Gunnar Smári á ekki von á því að hinir flokkarnir fari í samskonar fjölmiðlun og Samstöðin. „Í fyrsta lagi þá nenna þeir þessu ekki. Í öðru lagi þá hugsa þeir „á ekki að eyða peningunum í að hafa mynd af mér á strætóskýlunum fyrir kosningar?“ Góða fótósjoppaða mynd sem segir bara: Traust, eða eitthvað svoleiðis.“