Segja umbann fara með dánarbúið sem eigin eign
Leonard Cohen lést fyrir 7 árum, árið 2016. Hann fól umboðsmanni sínum, Robert Kory, að hafa umsjón með dánarbúinu. Börn Cohens, Adam og Lorca, saka Kory þennan um að ganga um dánarbúið sem væri það hans persónulega eign, skipuleggja sýningar á eigum Cohens, gefa út ókláraða skáldsögu og selja dánarbúið í skömmtum, því þannig græði hann sjálfur sem mest. Það sé vegna þess að Kory hafi, platað Cohen til að skrifa undir skjal, rétt fyrir dauða sinn, sem veiti honum 15% umboðslaun af öllu því sem selt verði úr dánarbúinu. Þar með sé kominn upp hagsmunaárekstur; dánarbússtjóri eigi að gera búið upp, en nú hafi hann meiri hagsmuni af því að selja búið en koma því til réttmætra erfingja.
Útgáfurétturinn að verkum Cohen seldur fyrir 58 milljónir dala
Þessi hagsmunaárekstur endurspeglast kannski best í því að í fyrra seldi Kory útgáfufyrirtækinu Hipgnosis útgáfuréttinn að öllum 278 lögum Cohens. Samningurinn er metinn á 58 milljónir dala, og því koma tæplega 9 milljónir dala í hlut Korys.
Þetta er kaldhæðnislegt í ljós þess að Robert Kory var umboðsmaður Cohens síðasta áratuginn eftir að fyrrverandi umboðsmaður hans, Kelley Lynch, hafði rúið Cohen inn að skinni og haft af honum a.m.k. 5 milljónir dala.
Segja græðgi ráða för
Lögfræðingar Kory segja að græðgi ráði för systkinanna, þau vilji komast yfir dánarbúið, en að það hafi verið einlægur vilji Cohens að halda dánarbúinu fjarri börnum sínum. Á tímabili hafi hann jafnvel hugleitt að gera þau arflaus með öllu, en umboðsmaður hans, Kory, hafi fengið hann ofan af því. Adam og Lorca halda því hins vegar fram að Cohen hafi fyllst eftirsjá á dánarbeðinu yfir að hafa falið umboðsmanni sínum að sjá um dánarbúið.
Fölsuð skjöl
Lögmaður systkinanna, Adam Streisand, já hann er frændi Barböru, og hefur áður verið lögmaður erfingja Michael Jacksons og Muhammed Ali, segir í samtali við spænska blaðið El País að skjalið sem veiti Kory umboð til að ráðstafa dánarbúinu, sé falsað. Blaðsíðum hafi verið skipt út úr skjalinu eftir að Cohen lést, sem veiti Kory meira vald en Cohen ætlaði honum. Þetta hafi lögmenn Kory viðurkennt.
Deila barna Cohens og umboðsmanns hans kemur fyrir dóm í Los Angeles síðar í þessum mánuði, 7 árum eftir að Cohen kvaddi þessa jarðvist, en dánarbú Cohens er metið á 48 milljónir bandaríkjadala.