Sýningaropnun verður laugardaginn 25. mars klukkan 15:00 á Kjarvalsstöðum en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnar sýninguna. Sýningarstjórar eru Edda Halldórsdóttir, Markús Þór Andrésson og Ólöf K. Sigurðardóttir.
Í fréttatilkynningu frá safninu kemur meðal annars fram:
„Á sýningunni er að finna um tvöhundruð listaverk úr safneigninni og skiptist hún á milli Austur- og Vestursala á árinu 1973, þegar Kjarvalsstaðir voru vígðir. Um leið markar árið ákveðin straumhvörf í listasögunni hér á landi því þá eru að verða skil á milli línulegrar framvindu módernismans og margsögu framúrstefnutímabilsins. Á sýningunni eru verk eftir marga af fremstu listamönnum þjóðarinnar, verk sem eru vel kunn, en einnig fjölmörg verk sem sjaldan hafa verið sýnd og munu koma mörgum á óvart.“
Því má segja að sýningin veiti innsýn í þann menningararf sem varðveittur er í Listasafni Reykjavíkur.
„Kviksjá er yfirskrift sýningaraðar þar sem við skoðum listaverk í safneign Listasafns Reykjavíkur. Í ár fagnar safnið því að 50 ár eru liðin frá því fyrsta aðsetur safnsins var formlega opnað á Kjarvalsstöðum.
Í tilefni tímamótanna er sérstakur gaumur gefinn að safneigninni og tækifærið nýtt til til þess að skoða og sýna gersemar sem þar eru varðveittar.
Í safninu eru nú rúmlega sautján þúsund skráð verk af öllum gerðum unnin í fjölbreytta listmiðla, allt frá skissum og rissi eftir meistara Kjarval til samtímalistaverka eftir unga sem aldna listamenn,“ segir jafnframt í tilkynningu frá safninu.

Þá eru fleiri sýningar væntanlegar.
„Kviksjá 20. aldar er kynnt á Kjarvalsstöðum en Kviksjá 21. aldar verður í Hafnarhúsi frá 6. júní og Kviksjá erlendar myndlistar í safneigninni er í Hafnarhúsi til 7. maí.“
Sýningarheitinu er lýst á eftirfarandi hátt:
„Kviksjá (e. kaleidoscope) er leikfang sem brýtur upp hefðbundið sjónsvið og gefur kost á því að njóta þess að skoða veruleikann í brotakenndu mynstri.
Safneign í listasafni má segja að lúti sömu lögmálum. Aldrei gefst kostur á að skoða safnið nema að hluta í ólíkum samsetningum og nýju samhengi. Um leið er safneignin ekki nema brotakennt úrval af listsköpun á hverjum tíma og sýn manna á verkin lituð ríkjandi tíðaranda hverju sinni,“ segir á vef safnsins.
Sýningin stendur fram til 7. ágúst næstkomandi. Hér má finna nánari upplýsingar.