Fjórir þeirra sem særðust voru fluttir til aðhlynningar í Írak. Hlúð var að tveimur á staðnum.
Í kjölfarið gerðu Bandaríkjamenn loftárásir á skæruliðahópinn og aðra sem studdir eru af Byltingarverði Írans. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í nótt að loftárásir Bandaríkjamanna hefðu verið hnitmiðaðar og þeim væri ætlað að koma í veg fyrir frekari árásir, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Árásirnar voru gerðar að skipa Joes Biden, forseta Bandaríkjanna.
Syrian Observatory for Human Rights, samtök sem vakta átökin í Sýrlandi, hafa eftir heimildarmönnum sínum að minnst átta skæruliðar hafi fallið í árásum Bandaríkjanna. Búist sé við að fleiri muni láta lífið þar sem margir séu særðir.
Samtökin segja að árásirnar hafi meðal annars beinst gegn vopnageymslu í Deir Ezzor.
Herforinginn Michael Kurilla, einn af æðstu yfirmönnum Bandaríkjahers, segir að herinn sé í stöðu til að gera frekari og umfangsmeiri árásir, verði þörf á því.
Below is a statement from the CENTCOM Commander on the precision strikes in response to American casualties in Syria. pic.twitter.com/MIJeQh1VtD
— U.S. Central Command (@CENTCOM) March 24, 2023
Hann sagði þingmönnum í gær að Íran hefði mun meiri hernaðargetu en áður og vísaði sérstaklega til stýri- og eldflauga og sjálfsprengidróna. Kurilla sagði einnig að Íranar hefðu gert 78 árásir á bandaríska hermenn í Sýrlandi frá janúar 2021. Bæði sjálfir og í gegnum skæruliðahópa.
Bandaríkin eru með hundruð hermanna í Sýrlandi og eiga þeir að vera þar til að berjast gegn vígamönnum Íslamska ríkisins, sem enn eru virkir í Sýrlandi og í Írak. Bandarísku hermennirnir styðja sýrlenska Kúrda og bandamenn þeirra í Syrian Democratic Forces, sem leiddu baráttuna í að brjóta kalífadæmi ISIS á bak aftur.