Fjallað var um stöðuna í fréttum Stöðvar 2 en í morgun breytti Veðurstofan gulri viðvörun yfir í appelsínugula. Viðvörunin tók gildi klukkan nítján í kvöld. Hún nær í raun yfir alla Austfirði, milli Glettings og Þvottárskriða, og byggðir allt norður frá Seyðisfirði og suður fyrir Djúpavog. Snjóflóðahætta er talin á öllu svæðinu, mest þó á miðhluta Austfjarða.

Annað kort frá Veðurstofunni sýnir áætlaða uppsafnaða úrkomu fram til klukkan átján á föstudag. Þar sést að þetta mikla úrkomubelti nær suður í Öræfasveit. Þetta byrjar sem snjókoma en breytist svo í slyddu og loks í rigningu eftir því sem hlýnar og þá verður hætta á krapaflóðum.

Á færðarkorti Vegagerðarinnar síðdegis yfir færðina á þjóðvegum Austurlands mátti sjá að helstu leiðir voru enn opnar. Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar lokaðist að vísu um tíma í morgun en búast má við að færðin spillist strax í kvöld því varað er við miklum samgöngutruflunum.

Þegar séð var að snjóflóðahætta myndi aukast með versnandi veðurspá sendu almannavarnir enn meiri liðsauka til Austurlands í dag sem bættist við þann hóp sem sendur var strax á mánudag.
Lið frá björgunarsveitum, lögreglu, slökkviliði og Rauða krossinum flaug þá austur en einnig voru hundar með í för, þjálfaðir til leitar í snjóflóðum. Landhelgisgæslan sendi einnig þyrlu austur sem og varðskip. Björgunarsveitir á Norðurlandi lögðu einnig lið og sendu snjóbíla og mannskap.

Hjá lögreglunni á Austurlandi áætlaði Hjalti Bergmar Axelsson, aðalvarðstjóri á Egilsstöðum, nú síðdegis að yfir tvöhundruð manns væru núna þar í viðbragðsstöðu. Þar af væru um fimmtíu manns af Austurlandi en yfir 150 manns úr öðrum landshlutum.

Það eru þó vettvangsstjórnir heimamanna, á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Eskifirði og ekki síst á Norðfirði, sem bera hitann og þungann af þeim mikla viðbúnaði sem núna er haldið úti.
Snjóflóðið sem féll á nokkur hús í Neskaupstað í fyrradag minnti menn þar óþyrmilega á snjóflóðin 1974 sem kostuðu tólf manns lífið. Bílarnir sem lágu þar á hvolfi, um tugur talsins, vitna um þann ógnarkraft sem fylgir snjóflóði og það sem olli mestum skaða á mánudag telst þó lítið.

„Það var voða lítið magn í því en hraðinn hefur verið óskaplegur og farið illa með þetta,“ sagði Tómas Zoëga, snjóflóðaeftirlitsmaður í Neskaupstað, þegar hann sýndi okkur ummerki snjóflóðsins sem féll í fyrradag.
„Það hefur verið mikill asi á þessu en það fór nú flóð hér úr fleiri giljum.“

Eitt þeirra hafi fallið á varnargarð.
„Og sannar ágæti garðanna. Það kemur á garðinn og fer alveg upp á topp á því. Það hefði sennilega farið niður á hús ef það hefði ekki verið stoppað,“ sagði Tómas snjóflótaeftirlitsmaður.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá Norðfirði í gær: