„Við erum alveg á brúninni með því að vera of snemma að gera þetta,“ segir Hilmar Veigar í samtali við Ísland í dag. Stefnan er að hanna „nýja upplifun, byggða ofan á þessari bálkakeðjusýn sem gengur út á að kerfið sé ekki miðstýrt, heldur að það sé valddreifing til stærri hóps.“
Hilmar lýsir nýja verkefninu svona: „Ef við segjum að EVE Online væri Róm, þá ætlum við núna að fara að byggja New York.“ Um leið verður hagkerfið í nýju borginni þannig að hægt verður að flytja rafmyntina út úr leiknum, með öðrum orðum verður hagkerfið laust við gjaldeyrishöft - breyta sem Íslendingar þekkja af eigin raun.

Að nota Bitcoin-tækni sem grundvöll fjármálakerfis í tölvuleik er nýstárlegt og um leið umdeilt. En Hilmar Veigar segir allar tækninýjungar umdeildar framan af.
„Þetta er alveg heimsyfirráð-eða-dauði-stemningin aftur. Það er tvímælalaust þannig. Þegar við vorum að gera EVE Online í upphafi að það hafði nú enginn trú á því að við gætum gert þetta. Stundum ekki einu sinni við sjálf,“ segir Hilmar Veigar.
„En það tókst og hér erum við eftir allt það. Nú er búið að spenna bogann enn þá meira. Nú á ekki bara að búa til hagkerfi í höftum heldur opið hagkerfi, sem hefur áhrif á allt í kringum sig. Nú er bara að bretta upp ermarnar til að koma því í gang.“
Umdeildir en gífurlega umsvifamiklir fjárfestar
Fjárfestinguna í þessu verkefni CCP leiðir vísisjóður í eigu bandaríska fjárfestingafyrirtækisins Andreessen Horowitz, sem er í meirihlutaeigu tæknifrömuðanna Marc Andreesseen og Ben Horowitz. Líkt og fjallað er um í innslaginu að ofan hefur Marc Andreessen um árabil talað máli rafmynta og bálkakeðjutækni af nokkrum þrótti.
„Ég held að þeir hafi innsæi í að þegar hlutir komast á hreyfingu, þá er gott að vera snemma með,“ segir Hilmar Veigar, sem hefur haft nokkur kynni af fjárfestunum, einkum Marc Andreessen.

Málflutningur Marc Andreessen er ekki orðin tóm heldur er fyrirtæki hans orðið á meðal allra umsvifamestu fjárfesta heims á sviði rafmynta. Andreessen er til að mynda stjórnarformaður fyrirtækisins Coinbase, sem veitir fjárhirsluþjónustu með rafmyntir.
Andreessen er þó engu síðri risi á sviði hefðbundnari tæknifjárfestinga. Andreessen stofnaði Netscape fyrir aldamót sem var á sínum tíma mest notaði vafri heims og frá því að hann var seldur hefur Andreessen fjárfest í óteljandi verkefnum í tæknitengdri nýsköpun. Hann sat í stjórn eBay frá 2008-2014, í stjórn Hewlett-Packard frá 2009-2015 og loks er hann þaulsetnasti stjórnarmaður í stjórn Facebook, sem nú heitir Meta, en þar hefur hann haft sæti frá 2008.
Áhersla Marc Andreessen á þetta sem kallað er þriðji vefurinn, web3, bálkakeðjutækni og ómiðstýrð tölvutækni má segja að hafi komist nálægt því að koma honum í vandræði á síðari árum. Business Insider fjallaði um það fyrir um það bil ári að sæti Andreessen í stjórn Facebook kynni að vera í hættu vegna umfangsmikilla fjárfestinga hans á þessu bálkakeðjusviði og jafnvel fjárfestinga í verkefnum sem væru í raun í beinni samkeppni við verkefni á vegum Facebook. Facebook er líka að keppast við að koma sér upp bálkakeðjuinnviðum.