Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við fréttastofu. Hann segir að í morgun hafi áhöfn Freyju komið dráttartaug yfir flutningaskipið eftir að vindur og ölduhæð á Húnaflóa fór vaxandi.
Nú verður gerð tilraun við að koma skipinu út á dýpra vatn en skipið hefur verið strand síðan á þriðjudaginn. Skipið var að flytja tvö þúsund tonn af salti og 195 tonn af olíu þegar það strandaði.

„Það sem er í gangi núna er að varðskipið Freyja fikrar sig áfram með skipið í þeirri von um að koma því á dýpri sjó. Það verður samt að hafa í huga að það er töluvert af blindskerjum á svæðinu,“ segir Ásgeir í samtali við fréttastofu.
Hann segir skipið hafa orðið fyrir einhverjum skemmdum við strandið en sem betur fer skemmdust ekki tankar sem geyma olíu skipsins.
„Það skiptir öllu mál að vernda umhverfið þegar svona kemur upp á. Sem betur fer eru engin merki þess að olía hafi lekið í sjóinn,“ segir Ásgeir.