Kröftug jarðskjálftahrina hófst í norðausturhluta öskjunnar í Kötlu klukkan 9:41 í morgun. Þrír skjálftar yfir fjórum að stærð hafa mælst í dag, sá stærsti 4,5 klukkan 9:52.
Einar Freyr segir í samtali við Vísi að hann hafi sjálfur ekki fundið fyrir neinum skjálftanna og það sama eigi við um flesta aðra sem hann hafi rætt við í morgun. „Ég sá þó einhverja umræðu á íbúasíðunni okkar á Facebook að það voru einhverjir sem fundu fyrir skjálftunum.“
Einar Freyr segir að fyrir þau sem séu uppalin í grennd við Mýrdalsjökul þekki þetta vel. „Við erum við öllu búin og erum búin að vita það að við gætum átt von á skjálftum og jafnvel gosi. En það er mikið af nýjum íbúum hjá okkur. Fólksfjölgunin hefur verið mikil og það er einmitt mikið af fólki sem er þá ekki fætt og uppalið í þessu umhverfi,“ segir Einar.

Fundu ekki fyrir miklu í Þórsmörk
Fréttastofa náði einnig tali af skálavörðum Ferðafélags Íslands í Langadal og Útivistar í Básum í Þórsmörk sem sögðust ekki hafa fundið mikið fyrir skjálftunum í morgun. Einhverjir á svæðinu hafi þó orðið þeirra lítillega varir.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni mælist enginn gosórói á svæðinu og engar vísbendingar séu um að hlaup sé hafið undan jöklinum.
„Ekki er þó talið ráðlegt að vera við rætur Kötlujökuls vegna mögulegs gasútstreymis og hlaupvatns í farvegi Múlakvíslar. Sambærilegskjálftahrina varð í Kötluöskju árið í ágúst 2016. Ekkert hlaup varð í jöklinum í tengslum við þá hrinu. Stórt hlaup varð síðast í Múlakvísl í júlí 2011.“