Fyrirmynd hamarsins er fundarhamar Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara sem upprunalega var gefinn Sameinuðu þjóðunum árið 1952 þegar nýjar höfuðstöðvar stofnunarinnar í New York voru teknar í notkun.
Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins en hefð er fyrir því að formennskuríki Evrópuráðsins gefi Evrópuráðinu gjöf við lok formennskutímabilsins.
Fram kemur að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra muni sem forseti ráðherranefndar Evrópuráðsins afhenda Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands, fundarhamarinn á lokaathöfn leiðtogafundar Evrópuráðsins 17. maí. Lettar taka þá formlega við formennsku í ráðinu.

„Listakonan Sigríður Kristjánsdóttur, Sigga á Grund, skar hamarinn út, sem notaður verður til að stýra fundum ráðherranefndarinnar.
Efniviður Sigríðar í verkið er gamall peruviður sem að hennar sögn kemur einmitt frá gömlu meisturunum. Í upprunalegt verk sitt, sem stundum er kallað Ásmundarnautur, valdi Ásmundur Sveinsson þemað „Bæn víkingsins fyrir friði“, sem sést þegar vel er að gáð að hamarshöfuðið er stílfærður víkingur með spenntar greipar fyrir brjósti sér,“ segir í tilkynningunni.
Hamarinn hvílir á litlum stokki sem er holur að innan og þar má koma fyrir góðum skilaboðum til næstu formennsku. Á hamarinn er letrað á latínu og íslensku: Legibus gentes moderandae sunt - Með lögum skal land byggja.