Vindhraðinn var um 58 metrar á sekúndu þegar Mocha náði landi nærri bænum Sittew í Búrma síðdegis á sunnudag. Um miðjan dag í gær hafði bylurinn veikst og var þá skilgreindur sem hitabeltislægð. Flóðvatn var þá enn um einn og hálfur metri að dýpt sums staðar.
Neyðarástandi var lýst yfir í sautján bæjarfélögum í Rakhine-ríki þar sem stormurinn reif heilu þökin af húsum. Fólk leitaði skjól í klaustrum, musterum og skólum inni í landi.
Björgunarsveitir björguðu um þúsund manns sem voru innlyksa vegna sjávarflóða sem náðu á fjórða metra við ströndina. Auk þeirra látnu slösuðust hundruð manna. AP-fréttastofan hefur eftir leiðtoga björgunarsveitar að fólk hafi hörfað upp á húsþök eða efri hæðir. Margir hafi eytt nóttinni uppi á þaki.
Íbúar í vestanverðu Rakhine þar sem stór hópur róhingjamúslima býr segja að í það minnsta hundrað manns hafi farist og fjölda annarra sé saknað, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Skemmdir á innviðum eru sagðar aftra hjálparstarfi. Ófremdarástand ríkti fyrir í Búrma þar sem stjórnarherinn, sem sölsaði völdin í landinu fyrir tveimur árum, berst við uppreisnarhópa. Manny Muang frá Mannréttindavaktinni segir erfitt að fá áreiðanlegar upplýsingar um stöðuna í landinu eftir hamfarirnar.

Tók sveig fram hjá stórum flóttamannabúðum
Yfirvöld í nágrannaríkinu Bangladess gerðu um hálfri milljón manna að yfirgefa svæði við ströndina áður en bylurinn gekk á land. Sérstaklega hafði verið óttast um afdrif um milljón róhingja sem hafast við í hrörlegum flóttamannabúðum í borginni Cox's Bazar. Mocha fór hins vegar að mestu fram hjá borginni.
Engu að síður áætlar þarlendur embættismaður sem AP-fréttastofan ræddi við að um tvö þúsund íbúðarhús hafi eyðilagst og 10.000 til viðbótar skemmst á Sankti Martins-eyju og Teknaf í nágrenni borgarinnar. Enginn hafi farist en á annan tug slasast.
Mannúðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna höfðu byrgt svæðið af hjálpargögnum áður en stormurinn gekk yfir.