Veðrið hefur verið óspennandi víða um land, í það minnsta á Suður-, Vestur- og Norðurlandi en norðausturhornið hefur sloppið sæmilega til. Á Egilsstöðum mældist til að mynda 20 stiga hiti á föstudaginn.
Veðrið virðist ekki ætla að breytast í bráð, en hér að neðan er mynd af korti Veðurstofunnar sem sýnir hádegi föstudagsins næstkomandi; tuttugu og eins stiga hiti og sólarglæta á Egilsstöðum og norðar, en rigning og rok annars staðar.

„Þetta er orðið hvimleitt fyrir marga en þeir sem búa á norðausturhorninu, þeim finnst þetta fínt. Þar er þurrt og bjart og sæmilega hlýtt á meðan við eru hérna í hagléljum og strekkingsvindi,“ segir veðurfræðingurinn enn fremur.
Óli Þór segir að meðalhitinn hafi verið tiltölulega hár miðað við maímánuði fyrri ára. Norðanáttin hafi þó áður verið algengari, sem oft fylgir kuldi og næturfrost, ólíkt suðvestanáttinni sem nú sé ríkjandi.
En hvað útskýrir þetta veðurfar?
„Ein aðalástæðan er sú að hæðin, sem að öllu jafna – og er flesta vetur yfir Asóreyjum, hún situr þar enn; ætti svona að vera farin að hnika sér af stað til Spánar en virðist ekki hafa neinn áhuga á því. Og fyrir vikið þá komast lægðirnar ekkert aðra leið en hérna yfir suðurodda Grænlands og upp Grænlandssund, og þar af leiðandi liggjum við í suðvestanáttinni eftir lægðirnar,“ segir Óli Þór veðurfræðingur að lokum.