Teitur Björn Einarsson er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann telur ákvörðun Svandísar, sem óvænt tilkynnti í morgun um þá ákvörðun sína að veiðar á langreyð yrðu tímabundið bannaðar til 31. ágúst, ámælisverðar.
Reiðarslag fyrir fjölda fólks sem nú missir vinnu sína
Eins og fram hefur komið stóð til að veiðar hæfust á morgun og var undirbúningur vegna þeirra á lokametrum.
„Ákvörðun matvælaráðherra um að stöðva hvalveiðar tímabundið er reiðarslag fyrir fjölda fólks sem missir nú atvinnu sína. Ég hef farið fram á það að atvinnuveganefnd Alþingis verði kölluð saman sem allra fyrst og ráðherra geri grein fyrir máli sínu á þeim vettvangi. Mörgum spurningum og stórum álitaefnum hefur ekki verið svarað,“ segir Teitur Björn á Facebook-síðu sinni.
Vísir hefur rætt við fjölda manna innan Sjálfstæðisflokksins sem eru á einu máli um að við slíkt gerræði, sem þeir kalla þessa ákvörðun Svandísar, sé vart við búandi. Hvað sem mönnum kann að finnast um hvalveiðar til eða frá. Þeir hafa þó margir kosið að tjá sig ekki opinberlega um stöðuna að sinni, sem er viðkvæm en talið er að stjórnarsamstarfið sé í hættu.
Vinnubrögðin gagnrýnd
Haraldur Benediktsson bæjarstjóri á Akranesi hefur gagnrýnt vinnubrögðin og sagt þau vart ásættanleg. Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði í samtali við fréttastofu að honum væri brugðið: „Sérstaklega hvað ákvörðunin er tekin fljótt án þess að eiga eitthvað samráð.“

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins lýsti því yfir að hann væri ekki sammála ákvörðun Svandísar í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hann sagðist telja að þetta væri ekki meðalhófsstjórnsýsla.
„Það er fullt af fólki sem er bæði búið að vera að undirbúa þessa vertíð, það er fullt af fólki sem reiknaði með að fá hér tekjur á næstu tveimur mánuðum,“ segir Sigurður Ingi.