„Ég er svekkt, mér líður svolítið eins og ég hafi tapað. Mér fannst ég eiga seinna markið sem var frekar svekkjandi. Fer þarna undir mig á nær[stönginni], ég átti bara að taka hann. Mér fannst við samt verðskulda mark númer tvö og jafntefli sem lokaniðurstöðu frekar en að tapa leiknum. En þetta er pirrandi.“
Eftir frábæra byrjun og góða spilamennsku í upphafi seinni hálfleiks féll Blikaliðið mjög aftarlega á völlinn og hleypti Þrótturum á sig. Þrátt fyrir að hafa verið minna með boltann og ekki skapað sér eins mörg færi og Þróttur telur Telma sitt lið hæglega hafa getað unnið leikinn.
„Heilt yfir bara fínt, fyrri hálfleikurinn svona síðustu tuttugu, þá vorum við svolítið bara að sparka honum fram og vildum ekkert hafa boltann en mér fannst seinni hálfleikurinn betri. Við komum okkur í fínar stöður og hefðum alveg getað klárað leikinn fannst mér.“
Eftir 9 umferðir situr Breiðablik í öðru sæti deildarinnar með 17 stig, tveimur stigum á eftir ríkjandi meisturum Vals. Hvernig líst á Telmu á stöðuna eins og hún er í dag?
„Bara fín, fótbolti er fótbolti og það getur allt gerst í þessari deild. Við gerðum jafntefli í dag, Valur gerði jafntefli, þannig að mér finnst þetta bara fínt. Auðvitað værum við til í að vera með fleiri stig, en við virðum stigið í dag.“
Breiðablik mætir toppliði Vals í næstu umferð, þar sem Blikarnir hafa tækifæri til að skjóta sér á toppinn. Leikurinn fer fram á Kópavogsvelli næsta sunnudag klukkan 19:15.