Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra skoraði í morgun á stjórn Íslandsbanka að birta sáttina í dag. Í kjölfarið barst ábending frá Eddu Hermannsdóttur, samskiptastjóra Íslandsbanka sem sagði það ekki bankans að birta sáttina heldur gerði Fjármálaeftirlitið það.
Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi Seðlabanka sagði fyrir helgi að þegar bankinn hefði afhent Seðlabankanum undirritaða sátt þá yrði hún birt eins venja er. Í sáttinni koma fram málsatvik og niðurstaða málsins.
Edda segir að skrifað hafi verið undir sáttina í gær.
Kemur í ljós á morgun hvort kaup eiginmanns samskiptastjóra falli undir brotin
Enn er margt á huldu varðandi innihald sáttarinnar en Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði á föstudag að brot bankans fælust meðal annars í hljóðupptökum starfsmanna, hagsmunaárekstrum, flokkun viðskiptavina og áhættumati.
Sáttin verður væntanlega gerð opinber á morgun, mánudag og þá ættu málsatvik að liggja skýrar fyrir.
Athygli vekur að Ríkharður Daðason, eiginmaður Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra bankans, keypti fyrir tæpar 27 milljónir króna hlut í bankanum. Aðspurð um hvort kaup mannsins hennar féllu undir umrædd brot sagði Edda að það kæmi væntanlega í ljós á morgun.