Tvær vindmyllur fyrirtækisins Biokraft sem voru notaðir til að framleiða rafmagn í Þykkvabæ í Rangárþingi ytra voru teknar niður í fyrra. Þær skemmdust báðar í eldsvoða, önnur þeirra árið 2017 en hin á nýársdag í fyrra. Töluverður darraðardans varð þegar seinni vindmyllan var tekin niður í september en hún stóð af sér ítrekaðar tilraunir til þess að fella hana.
Áform eru uppi um að reisa tvær nýjar vindrafstöðvar í Þykkvabæ. Í tilefni af því lagði sveitarfélagið viðhorfskönnun fyrir 162 fullorðna íbúa í gamla Djúpárhreppi og spurði um afstöðu þeirra til verkefnisins í maí og júní.
Af þeim 86 sem svöruðu sögðust 54,1 prósent andvíg nýjum vindmyllum í bænum. Flestir þeirra sem lýsti yfir andstöðu við áformin sögðust mjög andvígir, 35 af 46 neikvæðum svarendum. Hlynnt voru 35,3 prósent (30 manns), flestir þeirra mjög hlynntir (23).
Andstaðan mun meiri á meðal þeirra sem búa næst
Þeir sem búa fimm kílómetrum eða fjær frá fyrirhugðum vindrafstöðvum voru merkjanlega jákvæðari í garð þeirra en þeir sem nær búa, að því er kemur fram í fundargerð byggðarráðs Rangárþings ytra.
Þeir sem búa fjær fyrirhuguðum vindmyllunum skiptust í jafnstórar fylkingar, 40,7 prósent með og á móti en 18,5 prósent í meðallagi andvíg eða hlynnt.
Af þeim sem búa innan við fimm kílómetrum frá vindrafstöðvunum sögðust aðeins 32,1 prósent hlynnt en 60,7 prósent andvíg. Þeir sem sögðust í meðallagi voru 7,1 prósent.