Ljóst er að Stöð 2 Sport mun sýna alla heimaleiki íslensku liðanna; Breiðabliks, Víkings og KA, sem og þá útileiki sem nú þegar er ljóst að liðin munu spila. Ekki verður hægt að staðfesta aðra útileiki, þegar og ef til þeirra kemur, fyrr en ljóst er hverjir andstæðingarnir verða.
Þetta þýðir að einvígi Breiðabliks og írsku meistaranna í Shamrock Rovers, í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu, verður sýnt á Stöð 2 Sport. Fyrri leikurinn er á Írlandi næsta þriðjudag og sá seinni á Kópavogsvelli viku síðar, 18. júlí.
Á fimmtudaginn eftir rúma viku verða svo KA og Víkingur bæði á ferðinni í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. KA-menn taka á móti Connah's Quay frá Wales í sínum fyrsta Evrópuleik í tuttugu ár, og verður leikurinn spilaður á heimavelli Fram í Úlfarsárdal þar sem heimavöllur KA er ekki löglegur.

Víkingar sækja Riga heim til Lettlands og liðin mætast svo í Víkinni 20. júlí, sama dag og KA-menn spila í Wales.
Öruggt að Blikar spili fleiri Evrópuleiki
Ljóst er að Blikar munu spila fleiri Evrópuleiki, hvernig sem fer, því tapi þeir gegn Shamrock Rovers fara þeir í 2. umferð Sambandsdeildarinnar.
Ef Blikar vinna Shamrock Rovers mæta þeir hins vegar FC Kaupmannahöfn og tryggja sér að minnsta kosti tvö einvígi til viðbótar, því ef þeir falla úr leik gegn FCK fara þeir í þriðju umferð undankeppni Evrópudeildarinnar, og tapi þeir einnig þar fara þeir í umspil í Sambandsdeildinni um sæti í sjálfri riðlakeppninni.