Frakkar eru langsterkasta liðið í riðli Íslands en liðið er ríkjandi ólympíumeistari, silfurlið síðasta HM og varð í 4. sæti á EM í fyrra.
Slóvenar urðu í 8. sæti á EM í fyrra og í 17. sæti á HM fyrir tveimur árum.
Angóla er margfaldur Afríkumeistari og hefur átt fast sæti á HM en varð í 25. sæti á mótinu fyrir tveimur árum.
Dregið var í Gautaborg í dag. Ísland er á meðal þeirra 32 þjóða sem spila á HM eftir að IHF tilkynnti á mánudag að Ísland og Austurríki hefðu fengið boðssætin tvö sem sambandið sér um að úthluta.
Spila á sama stað og meistarar Þóris og gætu mætt þeim
Riðill Íslands verður spilaður í Stavanger í Noregi. Ef Ísland verður í hópi þeirra þriggja liða sem komast upp úr D-riðli fer liðið í milliriðil með þremur liðum úr C-riðli, og verður milliriðillinn spilaður í Þrándheimi.
Þar bíða ríkjandi heims- og Evrópumeistarar Noregs, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, sem spila á heimavelli í Stavanger í C-riðli með Suður-Kóreu, Grænlandi og Austurríki.
A-riðill í Gautaborg
- Svíþjóð
- Króatía
- Kína
- Senegal
B-riðill í Helsingborg
- Svartfjallaland
- Ungverjaland
- Kamerún
- Paragvæ
C-riðill í Stavanger
- Noregur
- Suður-Kórea
- Grænland
- Austurríki
D-riðill í Stavanger
- Frakkland
- Slóvenía
- Angóla
- Ísland
E-riðill í Herning
- Danmörk
- Rúmenía
- Serbía
- Síle
F-riðill í Herning
- Þýskaland
- Pólland
- Japan
- Íran
G-riðill í Fredrikshavn
- Brasilía
- Spánn
- Úkraína
- Kasakstan
H-riðill í Fredrikshavn
- Holland
- Tékkland
- Argentína
- Kongó
Þetta verður í annað sinn sem Ísland spilar á HM kvenna í handbolta en liðið varð í 12. sæti á HM í Brasilíu árið 2011.
Leikstaðirnir á HM eru Herning og Frederikshavn í Danmörku, Stavanger og Þrándheimur í Noregi og Gautaborg og Helsingborg í Svíþjóð.
Eins og fyrr segir taka 32 þjóðir þátt á HM og verður spilað í átta fjögurra liða riðlum. Þrjú efstu liðin úr hverjum riðli komast áfram í milliriðla, þar sem tveir og tveir riðlar blandast saman, og verða milliriðlarnir því fjórir með samtals sex liðum í hverjum riðli. Tvö efstu liðin í hverjum milliriðli komast svo áfram í 8-liða úrslit.
Liðin sem komast í 8-liða úrslit eiga möguleika á að komast á Ólympíuleikana í París á næsta ári, því liðið sem verður heimsmeistari kemst beint þangað og liðin í 2.-7. sæti fá öruggt sæti í ólympíuumspilinu.