Útkallið barst rétt um klukkan 18.30 og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út ásamt nær öllum björgunarsveitum á Austurlandi. Enn á eftir að staðsetja flugvélina og nær leitarsvæðið frá Öxi og í vesturátt. Lögreglan á Austurlandi tekur einnig þátt í aðgerðum og þá hafa viðbragðaðilar komið saman í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík. Þetta herma upplýsingar frá Landhelgisgæslunni og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
„Við vitum í sjálfu sér mjög lítið á þessu stigi enn þá, það er verið að leita fyrir austan og búið að boða út nánast allar björgunarsveitir á Austurlandi, og þær eru bara á leið á vettvang,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Leitarsvæðið sé enn nokkuð óljóst en neyðarboðin komi einhvers staðar upp á Öxi og þar vestur af. Landhelgisgæslan fer með stjórn aðgerða og streymir nú fólk í Samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð.
Fylgst verður með þróun mála í vaktinni hér fyrir neðan fréttina. Ef hún birtist ekki er ráðlagt að endurhlaða síðuna.
Fréttin hefur verið uppfærð. Flugvélin fannst á áttunda tímanum.