Þar segir að 11. júlí hafi loftmyndir sýnt að fimmtán hektarar af gróðri hefðu brunnið en tveimur dögum síðar hafi 95 hektarar til viðbótar verið brunnir og mikið svæði hafi bæst í síðan þá.
„Mikilvægt er út frá umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum að hamla útbreiðslu gróðureldana. Þegar moslendi brennur verða mun meiri skemmdir á gróðrinum en þegar til dæmis graslendi eða mýrlendi brennur og lífríkið í heild verður fyrir skaða við gróðurelda, sem sagt smádýr og fuglar. Eftir mosabruna er landið albrunnið, það er gróðurþekjan hverfur alveg og jarðvegurinn verður óvarinn,“ segir í greininni.
Litlar breytingar hafa orðið á gosinu í nótt að sögn náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Nú koma um 12,7 rúmmetrar á sekúndu af kviku upp úr gígnum.
„Það er næstum því engin breyting, kannski örlítið minna [af kviku að koma upp],“ segir Magnús Freyr Sigurkarlsson, náttúruvársérfræðingur.
„Þetta er enn bara að renna í suðurátt. Rennur stutta leið og fer svo undir hraunbreiðuna og rennur þar í einhverjum rásum og kemur upp hér og þar. Þetta er allt að renna í suðurátt í átt að Merardölum. “