Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, segir að skotæfingin hafi gengið vel í gær.
„Menn kunna þetta alveg,“ segir Kristján. Hvalur 8 sé búinn að veiða einn hval og á eftir öðrum, á öðrum tímanum í dag. Hvalveiðiskip Hvals hf. geta mest veitt tvo hvali áður en sigla þarf til hafnar í Hvalfirði.
Hvalur 9 veiddi tvo hvali í gær og er í Hvalfirði. Kristján segir leiðindaveður í kortunum þannig að einhver tími líði áður en hann sigli á miðin á nýjan leik.
„Það er mjög umhleypingasamt, ekki alveg það sem við óskum okkur,“ segir Kristján.
Hann segir veiðarnar í gær hjá Hval 9 hafa gengið vel. Katrín Oddsdóttir lögmaður birti mynd á Facebook í dag sem hún segir sýna að hvalur sem veiddur var í gær hafi líklega verið skotinn tvisvar. Kristján þvertekur fyrir það.

„Það er rangt. Þau sjá það eitthvað illa. Linsunrnar eru orðnar eitthvað skakkar,“ segir Kristján.
Hvalveiðarnar séu háðar góðu veðri og koma verður í ljós handan helgarinnar hvort farið verði aftur til veiða. Óðum styttist í lok vertíðar.
„Nema það geri einhverja blíðu í byrjun október,“ segir Kristján. Ljóst er að aflinn í ár verður í kringum tíu prósent af kvótanum sem telur 160 hvali.