Flugvél íslenskra stjórnvalda lenti í Keflavík skömmu fyrir klukkan fimm í morgun. Henni var flogið frá Amman í Jórdaníu í gærkvöldi til Íslands með viðkomu í Róm. Guðríður Egilsdóttir, einn farþeganna, lýsir því að hún og samferðafólk hennar hefðu verið í útgöngubanni eftir að átökin brutust út.
„Við heyrðum í sprengjum og okkur var kynnt á hótelinu hvar við gætum farið í var ef þess þyrfti,“ segir Guðríður.
Önduðið þið léttar þegar þið voruð komin yfir landamærin [til Jórdaníu]?
„Eiginlega ekki fyrr en núna,“ segir Guðríður.
Viðtal við Guðríði, Petru Sigurðardóttur, Hall Halldórsson og Guðmund Bjarnar má horfa á hér fyrir neðan.
„Þetta er eitthvað sem maður trúir ekki að maður eigi eftir að lenda í. Maður fer að skoða stórkostlegar minjar og upplifa. Og allt í einu byrja loftvarnarflautur og maður lokaður inni á hóteli,“ segir Ástríður Lilja Guðjónsdóttir sem var í Ísrael með manni sínum, Margeiri Þorsteinssyni. Dóttir þeirra Sóley Margeirsdóttir var mætt á völlinn að sækja foreldra sína.
Var það tilfinningaþrungin stund að koma inn í flugvélina í Jórdaníu?
„Ég held að maður hafi verið meira frosinn. Maður trúði því ekki að þetta gæti gerst að einhver myndi grípa í taumana og kippa okkur heim. Maður er bara innilega þakklátur,“ segir Ástríður.
Viðtal við Ástríði, Sóleyju og Margeir má horfa á hér fyrir neðan.
Og hópur Færeyinga sem fékk far með íslensku flugvélinni kveðst alls ekki hafa búist við því að enda ferðalagið á Íslandi. „Enda sérðu hvernig við erum klædd,“ segir Durita Jakobsen og bendir fréttamanni á stuttermabolinn sem hún klæðist.
„Við erum þakklát fyrir að vera hér. Og við erum svo þakklát fyrir að eiga vinaþjóð sem leyfði okkur að koma um borð í flugvélina,“ segir Durita. Það var fyrir tilstilli mágkonu Duritu sem þau fengu far með vélinni; sú íslenskur vinur þeirrar fyrrnefndu lét hana vita af íslensku flugvélinni.
„Okkur leið eins og heima. Þau sögðu „velkomin heim“ um borð í flugvélinni,“ segir Heidi Ingolfsdottir Tvørfoss.
Viðtal við Duritu, Heidi, Hans David Damm Jakobsen og Erland Tvørfoss má horfa á hér fyrir neðan.