Þúsundir Palestínumanna halda áfram að flýja frá norðurhluta Gasastrandar í aðdraganda innrásar Ísraelshers. Herinn hefur tilkynnt að innrásin verði gerð á landi, í lofti og af sjó. Í hið minnsta 1300 Ísraelsmenn hafa látið lífið í árásum Hamas liða og um 3.400 eru særðir. Þá hafa um 2.400 Palestínumenn verið drepnir í átökunum og rúmlega tíu þúsund manns særst í loftárásum Ísraelsmanna. Tugir þúsunda íbúa á Gasa hafa yfirgefið heimili sín.
Félagið Ísland-Palestína hefur blásið til samstöðufundar á Austurvelli klukkan þrjú í dag, undir yfirskriftinni Samstaða með Palestínu - stöðvið fjöldamorð Ísraelshers. Formaður félagsins segir vestræn stjórnvöld hafa tekið einhliða afstöðu með Ísrael en fordæmi árásir Hamas-liða.
„Við erum að mótmæla líka afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar. Hún hefur fallið í þennan kór sem fordæmir einhliða,“ segir Hjálmtýr Heiðdal, formaður Íslands-Palestínu.
Með einhliða fordæmingu sé verið að gefa skotleyfi á saklausa Palestínumenn. Yfirvofandi innrás sé þannig með stuðningi Vesturlanda. Ísland sé eitt tveggja vestrænna ríkja sem hafi viðurkennt tilvist palestínsk ríkis.
„Ísland verður að framfylgja þessari viðurkenningu með því að taka afstöðu gegn ástandinu sem Ísrael hefur skapað.“
Félagið Ísland-Palestína fordæmi allar árásir á almenna borgara, sama hver á í hlut.
„En við leggjum sérstaklega áherslu á það að við fordæmum árásir Ísraelshers á vopnlausa borgara, með stórfelldum hernaðartækjum, með stuðningi vesturlanda. Það er meginatriðið sem blasir við,“ segir Hjálmtýr.
Fundurinn verður á Austurvelli klukkan þrjú í dag. Þar verða flutt stutt ávörp, sungið og að lokum samþykkt ályktun félagsins sem verður send ríkisstjórninni.