Card fannst látinn í skóglendi nærri á, í bænum Lisbon í Maine klukkan 19:45 að staðartíma. AP greinir frá því að hann hafi svipt sig lífi með skotvopni.

Umfangsmikil tveggja daga leit hafði staðið yfir að Card, sem er grunaður um að hafa staðið að skotárás á miðvikudagskvöld. Skotárásin átti sér stað á tveimur stöðum, annars vegar í keilusal þar sem barnakeilumót fór fram og hins vegar á bar. Átján manns létust og tugir særðust.

Robert Card var fertugur að aldri og hefur verið sagður hafa átt við geðrænan vanda að stríða. Hann lá á geðdeild í tvær vikur í sumar. Hann starfaði sem liðþjálfi í varaliðabúðum bandaríska hersins í Maine.
Búið er að bera kennsl á öll fórnarlömb skotárásarinnar en þau voru á aldrinum 14 til 76 ára. Lögreglan í Maine hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 14:00 að íslenskum tíma.
