Otti Rafn er sjálfur úr Grindavík og hefur unnið að því síðustu daga að tryggja öryggi bæjarbúa. Hann segir að björgunarsveitarmenn hafi farið um bæinn í morgun og komið upp vegatálmum við sprungur sem taldar voru of hættulegar til að öruggt væri að aka yfir þær.
„Að öðru leyti er hægt að fara um bæinn og fólk getur sótt það sem er hægt að sækja.“
Þú ert sjálfur héðan, hvernig er tilfinningin?
„Bara ömurleg, það er bara eitt orð yfir það. Það er alveg glatað að þurfa að yfirgefa bæinn sinn og taka allt með sér.“
Veraldlegir hlutir skipti líka máli
Otti Rafn segir að hann sé sjálfur búinn að fara heim til sín og taka saman persónulega muni. „Maður segir að þessir veraldlegu hlutir skipti ekki máli ef allir eru öruggir, og það er alveg rétt. En þessir veraldlegur hlutir skipta samt líka máli. Það er rosalega gott fyrir alla íbúa að fá að komast aðeins til baka og ná í eitthvað smotterí sem skiptir hvern og einn máli,“ segir hann.
Hann sé þó ekki viss um að bæjarbúar verði rólegri við það, en þeim muni sennilega líða aðeins betur.