Karlalið Grindavíkur átti að mæta Hamri í Hveragerði á föstudaginn en sá leikur hefur verið færður í Smárann klukkan 17:00 á laugardaginn.
Fyrr á laugardaginn, klukkan 14:00, mætir kvennalið Grindavíkur Þór frá Akureyri. Leikurinn átti að fara fram í íþróttahúsinu í Grindavík en ljóst er að hvorki verður æft né spilað þar næstu vikurnar.
Báðir leikir verða í beinni og opinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hitað verður veglega upp fyrir leikina og þeir síðan að sjálfsögðu gerðir upp að þeim loknum.
Miklar skemmdir hafa orðið við íþróttahúsið í Grindavík. Þar hafa stórar sprungur opnast og sigdalur myndast. Talið er að jörð hafi sigið um einn til tvo metra.
Í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, allt verði gert til að koma til móts við Grindvíkinga vegna ástandsins þar í bæ.
„Reglugerðir segja ýmislegt en þetta eru fordæmalausir tímar. Í þessu tilfelli, þótt við hjá KKÍ séum mjög föst fyrir þegar kemur að reglugerðum þá verðum við að horfa út fyrir það hér. Það er á svona stundum sem maður tekur reglugerðarbókina og hendir henni aftur fyrir haus og reynir að horfa fram á við,“ sagði Hannes.
„Við munum leysa þá hluti sem þarf að leysa. Íþróttafélögin í landinu hafa verið mjög dugleg að bjóða fram aðstoð. Þetta er allt að gerast, það er allt í vinnslu. Vonandi verður þetta sem stystur tími en hlutirnir leysast og við tökum einn dag í einu eins og staðan er núna.“
Grindavík vann Þór Þ., 93-90, í Subway deild karla á fimmtudaginn, degi áður en bærinn var rýmdur. Grindvíkingar hafa unnið þrjá leiki í röð og eru í 8. sæti Subway deildarinnar.
Grindavíkur tapaði fyrir Keflavík, 78-80, í toppslag í Subway deild kvenna í síðasta leik sínum 31. október. Keppni í deildinni hefst aftur í vikunni eftir landsleikjahlé.
Báðir leikir Grindavíkur á laugardaginn verða sýndir beint á Stöð 2 Sport.