Jarðskjálfti 3,7 að stærð mældist laust eftir klukkan hálf sex í nótt sem átti upptök sín við Kleifarvatn. Engin teljandi merki eru um breytta virkni yfir kvikuganginum við Grindavík í nótt og gosórói hefur ekki mælst á jarðskjálftamælum samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Brýnt að halda utan um íbúa
Íbúum ríflega eitt hundrað heimila í Grindavík verður hleypt inn í bæinn í dag til að bjarga verðmætum síðar í dag verður fyrirtækjum hleypt inn. Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir brýnasta verkefni nú að halda utan um íbúa.
„Það sem er verst núna er óvissan. Fólk veit ekki hvenær það kemst heim aftur, það þarf að finna lausn á þessum lánamálum Grindvíkinga. Húnsæðimálaráðherra og bankamálaráðherra verða að setjast niður með bönkunum og finna lausnir á því,“ segir Birgir.
Bankarnir hafi svigrúm
Fólk eigi ekki að þurfa hafa fjárhagsáhyggjur. „Ég vil sjá það að fólk þurfi ekki að vera greiða af sínum lánum og þau séu ekki að safna vöxtum á þessu tímabili. Ég held að það sé mjög brýnt og ég tel að bankarnir hafi svigrúm til þess að finna ásættanlegar lausnir fyrir íbúðareigendur,“ segir Birgir jafnframt og bætir við að þannig sýni bankarnir samfélagslega ábyrgð.
Undir það tekur Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem telur nauðsynlegt að bankarnir bregðist við. „Ég trúi ekki öðru en að bankastofnanir komi betur að þessum málum og ef þau gera það ekki þá hafa stjórnvöld auðvitað möguleika á því að leggja á bankaskatt aftur og nýta þá fjármuni til stuðnings aðgerða og mér finnst augljóst að það verði gert ef bankarnir taka ekki af skarið sjálfir,“ segir Oddný.
Grindvíkingar eigi ekki að þurfa bera kostnað af tveimur heimilum. Á morgun verði frumvarp sem á að tryggja afkomu Grindvíkinga rætt á Alþingi. Oddný segir þó þurfa að ganga lengra í aðgerðum. „Grindvíkingar þurfa að fá að vita frá stjórnvöldum að þau verði ekki skilin eftir á flæðiskeri, að þau muni grípa þau.“