„Þegar ég eignaðist sjálf fjölskyldu fór ég að meta hefðirnar sem foreldrar mínir gerðu með okkur systkinum svo ótrúlega mikið,“ segir Salka Sól.
Hún og eiginmaður hennar, rapparinn Arnar Freyr Frostason eiga saman tvö börn. Þau heita Una Lóa og Frosti.

Að sögn Sölku er laufabrauðsgerð ómissandi hluti af jólaundirbúningnum. Fjölskyldan hittist öll hjá foreldrum hennar. Salka segir að þar eigi þau notalega stund saman á hverju einasta ári.
„Við höfum gert laufabrauð svo lengi sem ég man eftir mér. Síðan skreytum við gamalt jólatré sem fjölskylda pabba átti þegar hann var barn,“ segir Salka.

Jólatónleikar Stórsveitar Reykjavíkur ný hefð
Að sögn Sölku er tónlistin mikilvægur þáttur af aðventunni. Síðastliðin tvö ár hefur hún komið fram á jólatónleikum Stórsveitar Reykjavíkur í Hörpu sem hún lýsir sem yndislegri fjölskyldustund.
„Ég var alveg komin á steypirinn í kringum jólin með bæði börnin,“ segir Salka sem eignaðist börnin í desember 2019 og janúar 2022.
„Mér þykir einstaklega vænt um að núna í þriðja sinn er ég að syngja með uppáhalds hljómsveitinni minni, Stórsveit Reykjavíkur á jólatónleikum sem eru ætlaðir allri fjölskyldunni,“ segir Salka og tekur fram að það sé velkomið að dansa og syngja með, koma sér rækilega í jólafíling.
