Guardian hefur eftir ísraelska miðlinum í frétt um ástandið á Gasasvæðinu. Haaretz birti rannsókn sína í dag á sama tíma og Ísraelsher hefur haldið áfram linnulausum loftárásum sínum á Gasa.
Ísraelskar loftárásir dundu í dag á Shejaiya-hverfi í Gasaborg og á bænum Rafah í suðurhluta Gasa við landamæri Egyptalands. Ísraelsher hafði áður sagt Palestínumönnum að leita skjóls í Rafah.
Heildarfjöldi látinna undanfarinn sólarhring er enn óljós en í tilkynningu frá Deir al-Balah, einum stærsta spítala í Gasa, kom fram að spítalinn hefði tekið á móti 71 líki og farið var með 62 lík til Nasser-spítala í borginni Khan Younis.
Fordæmalaus morð á óbreyttum borgurum
Samkvæmt greiningu Haaretz á loftárásum í síðustu þremur hernaðaraðgerðum í Gasa á árunum 2012 til 2022 var hlutfall óbreyttra borgara af dauðsföllum í loftárásum um 40 prósent. Hlutfallið var nokkuð lægra, um 33 prósent, í ísraelsku hernaðaraðgerðinni „Skjöldur og ör“ í maí.

Í fyrstu þremur vikum núverandi hernaðaraðgerðar Ísraela sem ber heitið „Járnsverð“ náði hlutfall óbreyttra borgara 61 prósenti af heildardauðsföllum í loftárásum. Slíkt hlutfall sé fordæmalaust samkvæmt Hareetz. Það sé mun hærra en í loftárásum stríða á 20. öld þar sem hlutfallið var í kringum 50 prósent.
„Í grófum dráttum er niðurstaðan sú að víðtæk morð á óbreyttum borgurum stuðla ekkert að öryggi Ísraels heldur búa þau til frekari grunn að því að grafa undan því,“ segir í niðurstöðu greiningarinnar.
Hareetz staðfestir einnig tíu daga gamla rannsókn tveggja ísraelskra fréttamiðla, „+972 Magazine“ og „Local Call“ sem sýnir að Ísrael sé markvisst að ráðast á íbúðablokkir í von um að gríðarlegt mannfallið leiði til þess að Palestínubúar muni snúast gegn Hamas.