Bláa lónið var opnað í gær í fyrsta skipti í ríflega fimm vikur eftir jarðskjálftahrinuna í nóvember. Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri sölu-markaðs-og vöruþróunarsviðs lónsins segir vel hafa gengið.
„Það hefur gengið vonum framar. Gestir glaðir og starfsmenn ánægðir með að vera komnir til vinnu. Baðgestir voru helmingi færri en venjulega,“ segir Helga.
Helga segir að farið hafi verið yfir viðbragðs-og rýmingaráætlanir meðan lónið var lokað.
„Ef svo ólíklega vill til að það gerist eitthvað og við þurfum að rýma lónið í flýti þá erum við með rýmingaráætlanir eins og alltaf. Við nýttum lokunina til að æfa rýmingu,“ segir Helga.
Fljótlega eftir rýmingu Grindavíkur ákváðu stjórnvöld að greiða hluta launakostnaður hjá fyrirtækjum sem þurftu að loka. Þá kom fram að fyrirtæki sem þiggja stuðning geti ekki greitt út arð í 12 mánuði eftir að gildistíma laganna lýkur nema greiða stuðninginn fyrst til baka.
Helga segir að ekkert hafi verið ákveðið í málinu.
„Við erum með 800 hundruð starfsmenn í vinnu og gáfum það út strax til að koma í veg fyrir óvissu hjá okkar starfsmönnum að við myndum greiða út full laun í nóvember og desember. Hvað varðar stuðning frá stjórnvöldum þá hefur það ekki verið ákveðið við ætluðum að sjá hvernig þetta þróast allt saman,“ segir Helga að lokum.