Þetta sagði Magnús Tumi í samtali við umsjónarmenn Bítisins á Bylgjunni í morgun. Hann segir skjálftana og landrisið hafa verið á sama stað og verið hefur.
„Þetta er þarna í kringum Svartsengi, en Svartsengi er náttúrulega ekki bara Svartsengi [virkjunin]. Þetta er svæði sem er að lyftast og þar er kvika að safnast fyrir á kannski fimm kílómetra dýpi. Staðurinn þar sem má reikna með að fari upp, ef kemur til goss sem maður verður að telja líklegt, þá er það á svipuðum stað og var síðast, það er Sundhnúkssprungunni. Það gæti verið á sama stað, það gæti verið norðar. Það gæti líka verið sunnar, nær Grindavík.“
Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum að neðan.
Gæti runnið hratt inn í bæinn
Aðspurður um hvort hann telji Grindavík vera í hættu segir Magnús Tumi að það sé ekki líklegt miðað við söguna að gossprungur nái inn í Grindavík.
„En, Grindavík óvarin, þá getur hraun runnið mjög hratt inn í bæinn. Við sáum til dæmis gosið sem kom síðast þá var hraunið mjög þunnfljótandi. Hraunið var komið mörg hundruð metra, jafnvel kílómetra, á einum klukkutíma. En svo fór það ekki mikið lengra í því tilviki. Þess vegna er sú gerð varnargarða sem á að byrja á nú í hádeginu, hún er ekkert að byrja of snemma,“ segir Magnús Tumi.
Fyrirstaða sem beinir hraunin framhjá
Magnús Tumi segir ekkert hægt að fullyrða um að varnargarðarnir muni virka. „En hins vegar er það þannig að ef við horfum á hraunið sem hefur þarna verið að renna… Hraun sem rennur mjög hratt, það er þunnfljótandi. Þá er spurningin sú að búa til fyrirstöðu sem beinir hrauninu annað og beinir því framhjá. Það þýðir ekkert að byggja garða og ætla að safna þessu upp, eins og stíflu. Auðvitað getur það virkað ef þú ert heppinn, en hitt er miklu skynsamlegra og hugsunin er sú að þetta eru leiðigarðar.“

Tilraunarinnar virði
Magnús Tumi segir þetta klárlega vera tilraunarinnar virði þar sem eignir og verðmætin þarna séu metin á 150 milljarða en að kostnaðurinn við gerð leiðigarðanna fimm til tíu milljarðar króna.
Hann segir sömuleiðis að til greina komi að kæla hraun með sjó, komi upp ákveðnar aðstæður. „Samspil varnargarða og hraunkælingar, það er eðlilegt að hugsa þetta þannig. En ef hraun er þunnfljótandi og rennur mjög hratt, þá er erfitt að beita vatninu,“ segir Magnús Tumi.