Sayyed Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, hvatti til hefndaaaðgerða í gær eftir að Ísraelar drápu Saleh al-Arouri, næstráðanda Hamas, í loftárás á Beirút 2. janúar. Nasrallah sagði að ef Hezbollah myndi ekki svara fyrir sig þá yrði Líbanon í heild sinni berskjaldað fyrir árásum Ísraels.
Til að reyna að lægja öldurnar á svæðinu hefur Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, farið í diplómatatúr um Miðausturlönd en það er í fjórða sinn sem hann fer í slíkt ferðalag frá því átökin milli Ísrael og Hamas hófust fyrir þremur mánuðum síðan.
„Það er bráðnauðsynlegt að forðast það að Líbanon verði dregið inn í átökin á svæðinu,“ sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, í Beirút en hann er sjálfur á díplómatatúr um Miðausturlönd.
Hezbollah svara fyrir morð á Hamas-liða
Hezbollah segjast hafa skotið 62 eldflaugum í átt að loftvarnastöð á Meron fjalli og hæft stöðina í fyrstu árásunum eftir morðið á Arouri. Einnig héldu samtökin því fram að þau hefðu hæft tvær herstöðvar Ísraela við landamærin.
Fulltrúar ísraelshers staðfestu að 40 eldflaugum hefði verið skotið í átt að herstöðvum við Meron. Daniel Hagari, talsmaður hersins, sagði að engan hefði sakað í árásunum.
Habari sagði jafnframt að Ísraelsher hefði svarað fyrir sig með árásum á þær hersveitir Hezbollah sem skutu eldflaugunum og aðrar herstöðvar samtakanna.
Hezbollah segja að sex hermanna sinna hefðu verið drepnir á laugardag. Mannfall samtakanna frá því átökin hófust er því komið upp í 150.
„Ekki megi stöðva stríðið“
Undanfarnar vikur hefur Ísraelsher dregið úr árásum sínum í norðurhluta Gasa og beinir sókn sinni nú að suðurhluta Gasa. Þangað er búið að þrýsta 2,3 milljónum Palestínubúa í alltof lítið svæði og því hefur verið varað við að það stefni í mannúðarkrísu á svæðinu.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, ítrekaði í yfirlýsingu að „ekki megi stöðva stríðið“ fyrr en búið er að ná yfirlýstum markmiðum Ísraela: að útrýma Hamas, endurheimta ísraelska gísla og tryggja að það muni ekki standa frekari ógn af Gasa.

Heilbrigðisráðuneytuð í Gasa greindi frá því á laugardag að 122 Palestínubúar hefðu verið drepnir á yfirstandandi sólarhring. Heildarmannfall frá upphafi stríðsins væri því komið upp ú 22.722 en þar er ekki greint á milli almennra borgara og hermanna.
Að sögn ráðuneytisins eru tveir þriðju hinn látnu konur og börn. Fjöldi særðra sé nú kominn upp í 58.166 manns.