Talsmaður Bandaríkjahers segir að flauginni hafi verið skotið af uppreisnarmönnum Húta í Jemen en henni grandað af bandarískri orrustuþotu áður en hún hæfði skotmark sitt.
Enginn særðist í árásinni og ekkert tjón hlaust af henni heldur að sögn Bandaríkjahers.
Bandaríkjamenn og Bretar hafa síðustu daga gert ítrekaðar árásir á bækistöðvar Húta í Jemen til að draga úr mætti þeirra, en þeir hafa ítrekað ráðist að flutningaskipum á Rauðahafi síðustu vikurnar og segjast með því vera að styðja við Palestínumenn í baráttu sinni við Ísraela.
Einn talsmanna Húta sagði við breska ríkisútvarpið í gær að þeir myndu hefja árásir á herskip Bandaríkjamanna til að hefna fyrir árásirnar á Jemen og sú virðist nú vera raunin, þótt árásin í nótt hafi ekki borið árangur.