Rætt var við Víði í beinni útsendingu í aukafréttatíma Stöðvar 2, örfáum mínútum áður en hraun rann yfir Njarðvíkuræðina svokölluðu sem flytur heitt vatn til Suðurnesja. Þannig raungerðist svartasta sviðsmyndin að sögn Víðis.
Þetta gerðist allt mjög hratt í morgun, gerðuð þið ráð fyrir þessu?
„Svona tveimur tímum eftir að gos hófst í morgun sýndist okkur að hraunstraumarnir til vesturs væru að renna með Stóra Hagafelli og til norðurs. Síðan gerist það að það myndast hrauntröð sem hefur verið á mikilli ferð. Vísindamenn segja að hraðinn á henni hafi verið 800-1000 metrar á klukkustund sem er frekar hratt, og segir okkur að hraunið sé þunnfljótandi.“
Eru fleiri innviðir í hættu?
„Já, Það er háspennulínan sem flytur rafmagn frá orkuverinu í Svartsengi. Það eru líka kaldavatnslagnir þarna sem hraun mun renna yfir en þær eru á talsverðu dýpi og við vonumst til að þær haldi.“
Viðbragðstíminn styttri með hverju gosi
Víðir segir að unnið hafi verið dag og nótt undanfarið við að tengja nýja lögn. Í morgun var byrjað á bráðabirðalausnum til að verja hana, að hún þoli að hraun renni yfir hana
„Ef það tekst þá verður þetta styttri tími sem það verður heitavatnslaust, en alltaf verður talið í einhverjum dögum sýnist okkur.“
Víðir segir atburðarásina hafa verið mjög hraða í morgun. Þrjátíu mínútum eftir fyrsta símtal frá Veðurstofunni til almannavarna hafi gosið verið hafið. Þá segir hann viðbragðstímann alltaf verða styttri með hverju gosi.
Þó telji hann að hægt hefði verið að rýma Grindavíkurbæ ef fólk hefði verið í bænum, en svo reyndist ekki vera.