„Þetta var alveg einstakt afrek sem var unnið hér á síðustu tveimur sólarhringum,“ segir Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS Orku um framkvæmdir við að koma heitu vatni aftur á hús á Suðurnesjum.
Búið hafi verið til framleiðsluplan og stállagnir sem voru til vara soðnar saman.
„Það er síðan dregið út á nýjum vegi sem var lagður yfir hraunið, soðið saman í báða enda og svo vatni hleypt á.“
Upphafleg varalögn hefði verið grafin ofan í jörðina. Sú framkvæmd hafi staðið yfir, en ekki lokið.
„Við ætluðum að grafa hana á kílómeters kafla, en vorum bara komin með sex hundruð metra. Það var nú fyrsta planið, að reyna að tengja þá lögn. Því miður hafði hraun komist að henni, við vitum ekki hvar eða hvernig. Í fyrstu rann vatn í gegn en svo gaf hún sig, þannig að við þurftum að fara í þetta plan B og leggja lögnina ofanjarðar,“ segir Tómas Már og bætir við að starfsfólk muni koma lögninni í öruggt skjól.

Leita þurfi varanlegra lausna
Tómas Már segir að þrátt fyrir að mikið þrekvirki hafi þegar verið unnið sé heilmikið verkefni eftir.
„Við þurfum að gera aðra lögn, við þurfum að gera varanlega lögn, við þurfum að leggja lagnir annars staðar frá svæðinu til að vera örugg. Svo erum við líka með framkvæmdir í lághitaveita, sem á að tryggja lágmarksviðbragð, og ýmislegt annað,“ segir hann.
Tómas segir mikla vinnu hafa farið fram síðustu þrjú ár, til að mynda tilraunir í hrauninu í Fagradalsfjalli. Þær hafi nýst vel núna. Gagnrýni á að engar ráðstafanir hafi verið gerðar, til að mynda með lagningu varalagnar, sé ekki réttmæt að hans mati.
„Hér hefur verið unnið mjög gott starf af öllum aðilum, undir stjórn Almannavarna, til þess að vera viðbúin þessu ástandi,“ segir Tómas Már.