Ekkert hefur spurst til Jóns Þrastar síðan í febrúar 2019 eftir að hann fór gangandi frá Bonnington hótelinu. Þar hafði hann dvalið ásamt unnustu sinni en þau komu til borgarinnar til að spila póker.

Greint var frá því í gær að lögreglan í Dyflinni teldi líklegt að Jón Þröstur hafi farið í Santry Demense garðinn til að hitta einhvern til að fjármagna áframhaldandi pókerspil. Sá fundur hafi endað illa. Lögreglan er sögð byggja það á tveimur nafnlausum bréfum sem voru annars vegar send á lögreglu og hins vegar á prest. Lögreglan hefur hvatt þá sem sendu bréfin til að hafa samband og lofað þeim nafnleynd.
Umfangsmikil leit hefur farið fram í almenningsgarðinum í tvo daga og hafa komið að leitinni leitarhundar og kafarar. Skóglendi í garðinum var girt af í gær eftir að leitarhundar fóru yfir svæðið og brugðust við lykt á svæðinu. Lögreglan hefur ekkert gefið upp um leitina en mikið er fjallað um málið í írskum fjölmiðlum. Á vef Newstalk segir að leit verði haldið áfram í dag og á vef RTE, írska ríkismiðilsins, segir að réttarmeinafræðingar séu við störf í garðinum. Á vef Dublin Live segir að lögreglan sé byrjuð að grafa á vettvangi.
Systkini Jóns í Dyflinni
Systir og bróðir Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf sporlaust í Dyflinni fyrir fimm árum síðan segjast finna fyrir viðhorfsbreytingu írsku lögreglunnar vegna rannsóknar á hvarfi hans. Þetta kom fram í Kastljósi í gærkvöldi þar sem rætt var við þau Önnu Hildi Jónsdóttur og Davíð Karl Wiium sem stödd eru í Dublin.
Fréttin var uppfærð klukkan 10.15 með tilvísun í frétt Dublin Live um að það sé byrjað að grafa í garðinum.