Viggó var langmarkahæsti maður vallarins með hvorki fleiri né færri en 14 mörk fyrir Leipzig úr 18 skotum. Þar af skoraði hann þrjú mörk úr vítaköstum, en hann gaf einnig fimm stoðsendingar á liðsfélaga sína og kom því með beinum hætti að 19 mörkum heimamanna.
Heimamenn í Leipzig höfðu góð tök á leiknum frá upphafi til enda og leiddu 17-10 í hálfleik. Liðið jók svo forskot sitt enn frekar í síðari hálfleik og vann að lokum 11 marka sigur, 33-22.
Andri Már Rúnarsson leikur einnig fyrir Leipzig og hann skoraði tvö mörk í leiknum.
Þá áttu þeir Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson einnig fínan dag fyrir Melsungen er liðið vann eins marks sigur gegn Eisenach á sama tíma, 27-26. Elvar Örn skoraði fimm mörk fyrir Melsungen og Arnar Freyr bætti tveimur mörkum við.