Hættumatið gildir í sólarhring að öllu óbreyttu.
Hættulegustu svæðin tvö eru svæði 2 og 3 sem eru merkt fjólublá á kortinu en kvikuhlaupið hófst á því svæði við Sýlingarfell og Stóra-Skógarfell.
Hættan er metin mjög mikil vegna jarðskjálfta, sprunguhreyfinga, mögulegra gosopnanna án fyrirvara og jarðfalls ofan í sprungur, hraunflæðis, gosmengunar og gjósku á svæðunum.

Svæði 4 sem nær yfir Grindavíkurbæ er rauðmerkt sem táknar mikla hættu. Þá er svæði 6 einnig rauðmerkt en það teygir sig norðaustur frá bænum sunnan við hættulegustu svæðin tvö. Hættan er metin út frá sprunguhreyfingum, hraunflæði, gosmengun, gjósku og mögulegum gosopnunum án fyrirvara.
Svæði 1 og 5 sem ná frá Lágafelli í suðri og teygja sig yfir Þorbjörn, Bláa lónið, Sýlingarfell og hraunið frá 13. febrúar síðastliðinum eru merkt appelsínugul sem þýðir að þar sé töluverð hætta. Þar er hraunflæði, gosopnun, gasmengun og gjóska.
Síðan er einungis talin nokkur hætta á svæði 7 vestan við Grindavík þar sem eru líkur á jarðfalli ofan í sprungur, sprunguhreyfingar og hraunflæði.