Þetta sagði Schumer í ræðu á þinginu í dag þegar hann kallaði eftir því við kollega sína að þeir samþykktu hernaðaraðstoð bæði við Úkraínu og Ísrael. Schumer er leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni og jafnframt titlaður valdamesti gyðingurinn í opinberri þjónustu í Bandaríkjunum í umfjöllun Guardian í um málið.
Schumer sagði jafnframt að hann hefði lengi unnið með Netanjahú og þekki hann vel en trúi því að hann hafi „villst af leið með því að tefla pólitískri framtíð sinni fram fyrir hagsmuni Ísrael.“
Hann bætti því við að leiðinlegt væri að sjá að Netanjahú hefði hleypt stjórnmálamönnum lengst á hægri vængnum inn í ríkisstjórn sína. Þá væri Netanjahú sömuleiðis of viljugur til að lýða mannfall allmennra borgara á Gasa, sem hefði leitti til þess að stuðningur við Ísrael alþjóðlega er í sögulegu lágmarki. Ísrael, að mati Schumer, þyldi það ekki að hafa ímynd „vonda kallsins.“
Afstaða til Palestínu mýkst
Margir stuðningsmenn Joe Bidens Bandaríkjaforseta hafa lýst yfir miklum áhyggjum af almennu mannfalli á Gasa eftir að heilbrigðisyfirvöld á ströndinni lýstu því yfir að meira en 30 þúsund almennir borgarar hefðu fallið frá upphafi átakanna. Biden hefur frá 7. október stutt við Ísrael, sem margir kjósendur Demókrata hafa gagnrýnt. Miklar áhyggjur eru meðal Demókrata að þeir sem styðja við Palestínumenn í átökunum muni kjósa gegn Demókrötum í forsetakosningum í haust, til þess eins að mótmæla afstöðu forsetans.
Biden hefur undanfarnar vikur mýkt afstöðu sína nokkuð og talar nú opinberlega fyrir vopnahléi á Gasa, að því gefnu að Hamas sleppi úr haldi þeim gíslum sem þeir tóku 7. október síðastliðinn. Í byrjun þessa mánaðar byrjuðu Bandaríkjamenn til að mynda að senda mannúðaraðstoð til Gasa, sem kastað er úr flugvélum sem fljúga yfir ströndina. Þá segir Biden bandaríska herinn vera að undirbúa flutning neyðarbirgða sjóleiðina til Gasa.
Hugarfar stjórnvalda forneskjulegt
Schumer hefur frá upphafi stríðsins verið dyggur stuðningsmaður Ísrael. Hann heimsótti landið til að mynda aðeins nokkrum dögum eftir árás Hamas í október en orð hans virðast merk um einhvers konar hugarfarsbreytingu.
„Ríkisstjórn Netanjahú hentar ekki lengur hagsmunum Ísrael. Heimurinn hefur tekið dramatískum breytingum frá 7. október. Forneskjulegt hugarfar stjórnvalda heldur aftur af Ísraelsmönnum,“ sagði Schumer í ræðu sinni.
Hann taldi upp fernt sem helst stæði í vegi fyrir friði og tveggja ríkja lausninni, sem Bandaríkin hafa lengi stutt. Það var Netanjahú, hægrisinnaðir Ísraelsmenn, Hamas og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu.
„Þetta er það fernt sem helst stendur í vegi fyrir friði. Ef okkur tekst ekki að komast fram hjá þessum hindrunum í vegi okkar þá munu Ísrael, Vesturbakkinn og Gasa sitja föst í hringrás þess ofbeldis sem ríkt hefur síðustu 75 ár.“