Virkni í eldgosinu hefur haldist nokkuð stöðug síðan í gær og hrauntunga sem stefnir í átt að Suðurstrandavegi hreyfist hægt. Hraunið þekur nú um sex ferkílómetra svæði og um þrjú hundruð metrar eru frá syðri hrauntungunni að veginum.
Barmur tjarnarinnar hélt
Í jaðri hrauntungunnar var hrauntjörn og Almannavarnir óttuðust um tíma að barmur hennar gæti brostið. Þá hefði hraun getað runnið hratt yfir Suðurstrandarveg.
Mikil brennisteinsmengun var á svæðinu í dag og orkuver HS orku var rýmt vegna hennar. Fólk sneri aftur til vinnu síðdegis í dag. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði mætti í myndver í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fór yfir stöðuna.
„Þetta eru orðin sjö gos núna á þremur árum og þau síðustu hafa verið mjög svipuð þarna í Sundhnúksröðinni. Gosin í Fagradalsfjalli og þar voru öðruvísi, miklu langdregnari og ekki eins kröftug í upphafi. En þetta sem við sjáum núna er að hegða sér öðruvísi en hin gosin sem hafa komið. Það byrjaði að vísu mjög svipað og var nú kröftugast af þeim. Það sem er öðruvísi er að það virðist vera mjög stöðug virkni í þessu gosi,“ segir Magnús Tumi.
Stefnir í lengra og meira gos
Það þýði að eldgosið nú gæti varað lengur en hin gosin sem komið hafa upp á sömu slóðum. Hraunið sé núna orðið töluvert stærra en úr hinum gosunum.
„Við verðum að bíða og sjá en þetta ætlar að vera heldur lengra og heldur meira en hin.“