Albert er núna staddur í Búdapest vegna leiksins við Ísrael í EM-umspilinu á fimmtudaginn. Á meðan flytur ítalski miðillinn La Gazzetta dello Sport fréttir af því að Inter ætli sér að fá hann í sínar raðir í sumar.
Blaðið tekur fram að samkeppnin um Albert sé mikil og nefnir að Juventus og Tottenham hafi einnig spurst fyrir um Albert.
Genoa er sagt vilja 30 milljónir evra fyrir Albert en það stöðvar ekki Inter. Forráðamenn félagsins vonast eftir að geta farið sambærilega leið og þegar Davide Frattesi kom frá Sassuolo síðasta sumar, með því að fá Albert fyrst lánaðan en skuldbinda sig til þess að kaupa hann.
According to La Gazzetta dello Sport, Inter have joined the race to sign Albert Gudmundsson, but Juventus and Tottenham have also inquired about the Genoa star. https://t.co/xOCQUaknU1 #Gudmundsson #FCIM #Inter #Juve #Juventus #THFC #Genoa #Transfers
— Football Italia (@footballitalia) March 19, 2024
Inter ætlar að nýta næstu vikur í að ná fremsta sæti í kapphlaupinu um Albert sem hefur farið á kostum í ítölsku A-deildinni í vetur og skorað tíu mörk.
Inter, sem er með 14 stiga forskot á AC Milan á toppi ítölsku A-deildarinnar, hefur þegar tryggt sér framherjann Mehdi Taremi sem kemur frítt frá Porto í sumar.
Félagið vill hins vegar líka fá Albert og sjá til þess að álagið verði ekki of mikið á þá Marcus Thuram og Lautaro Martínez, á löngu og ströngu tímabili næsta vetur en mögulegt er að liðið þurfi að spila 70 leiki.
Gazzetta bendir hins vegar einnig á að samkeppnin sé mikil og að einn af keppinautum Inter, Tottenham, hafi keypt fyrrverandi liðsfélaga Alberts, rúmenska varnarmanninn Radu Dragusin, frá Genoa í janúar fyrir 31 milljón evra.