„Ég get ekki beðið eftir því að halda út á völl og hefja leika,“ sagði Arnór í samtali við íþróttafréttamanninn Stefán Árna Pálsson, íþróttafréttamann, aðspurður um líðanina svona skömmu fyrir leikinn mikilvæga.
„Við erum búnir að bíða eftir þessari stundu lengi. Við vitum allir hversu stór leikur þetta er, hvað er undir. Full einbeiting á þetta verkefni.“
Finnurðu fyrir einhverju stressi í hópnum?
„Maður er meira bara spenntur fyrir þessu. Auðvitað finnur maður fyrir einhverju stressi á leikdegi fyrir leik en þetta er ekki fyrsti fótboltaleikurinn sem maður spilar. En að sjálfsögðu er þetta öðruvísi spennustig heldur en maður vanur.“
Arnór býst við lokuðum leik, til að byrja með hið minnsta.
„Þegar að það er svona mikið undir þá byrjar þetta kannski svona lokað. Liðin að þreifa á hvort öðru, hvar opnanirnar eru. Við þurfum bara að fara inn í þetta fullir sjálfstrausts. Trúa á það sem að við höfum verið að gera, byggja ofan á það.“
Sá möguleiki er fyrir hendi að leikurinn fari í framlengingu, jafnvel alla leið í vítaspyrnukeppni. Íslenska liðið er undirbúið fyrir þá sviðsmynd.
„Já já. Við erum alveg klárir í það og höfum undirbúið það.“
Ekki er ýkja langt síðan að Arnór tók sjálfur þátt í vítaspyrnukeppni með félagsliði sínu Blackburn Rovers í enska bikarnum gegn Newcastle United. Þar skoraði Arnór úr sinni vítaspyrnu en Blackburn laut þó í lægra haldi.
„Það er alltaf auka stress og stemning sem að fylgir með vítaspyrnukeppni. Við vonandi sleppum við það gegn Ísrael.“

Leikur Ísraels og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport fimmtudaginn 21. mars 2024. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.