Íslenski hópurinn vann þrjár medalíur á mótinu en það var árangur Eriku sem stóð upp úr því hún gerði sér lítið fyrir og vann Norðurlandameistaratitil.
Í tilkynningu segir að Erika hafi unnið sænskan andstæðing sinn í úrslitum, Arina Vakili, með miklum yfirburðum. Þó að Ísland hafi alloft keppt á Norðurlandamóti eru þetta fyrstu gullverðlaun Íslendings á slíku móti.
Ekki nóg með það heldur var Erika valin besta unga hnefaleikakonan á mótinu, þar sem valið stóð á milli þeirra kvenboxara sem voru undir 19 ára aldri.
Einnig silfur og brons
Nóel Freyr Ragnarsson vann Norðmann með sannfærandi hætti í undanúrslitum -67 kg flokks, hjá U19 ára, en varð að sætta sig við silfur eftir hörkubardaga við danskan mótherja sem jafnframt var ríkjandi Norðurlandameistari.
Benedikt Gylfi Eiríksson hlaut svo brons í U19 ára flokki, í -75 kg flokki, en hann tapaði fyrir dönskum keppinaut í undanúrslitum.

Alls voru sex íslenskir keppendur á mótinu. Elmar Gauti Halldórsson keppti í -75kg og lenti í fyrstu viðureign gegn Norðmanni sem að endingu vann mótið.
Hafþór Magnússon, í -67 kg, tapaði í fjórðungsúrslitum á klofinni dómaraákvörðun 1-4 gegn Svía í virkilega jöfnum bardaga.
Gabríel Warén, U19 -63,5kg, tapaði gegn Norðmanni í fjórðungsúrslitum á klofinni dómaraákvörðun, 3-2.
Davíð Rúnar Bjarnason landsliðsþjálfari er mjög ánægður með heildarárangur liðsins og segir að framtíðin sé björt í hnefaleikum á Íslandi. Þessi árangur sýni það vel að skrefin séu góð sem verið sé að taka fram á við.