Aðalfundur Landsbankans átti að fara fram síðastliðinn miðvikudag, 20. mars, en var frestað um fjórar vikur að beiðni Bankasýslunnar í kjölfar þess að tilkynnt var um samþykkt Kviku banka á skuldbindandi kauptilboði Landsbankans í TM tryggingar 17. mars síðastliðinn.
Fundurinn fer því fram 19. apríl næstkomandi og rennur út frestur fyrir hluthafa til að tilnefna í bankaráð Landsbankans fimm dögum fyrir aðalfund, 14. apríl. Tryggvi Pálsson, formaður stjórnar Bankasýslunnar, segist í samtali við fréttastofu ekki ætla að tjá sig um fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM fyrr en í fyrsta lagi þegar því er lokið.
Bankasýslan skipar alla sjö bankaráðsmenn Landsbankans, enda á ríkið 98,2 prósenta hlut í bankanum og fer Bankasýslan með eignarhlut ríkisins.

Mikið misræmi hefur verið í frásögnum Bankasýslunnar og bankaráðs Landsbankans á þeim samskiptum sem fóru þar á milli um kaupin á TM í aðdraganda þeirra. Báðir aðilar hafa greint frá því að 11. júlí í fyrra hafi Helga Björk Eiríksdóttir formaður bankaráðs Landsbankans greint Bankasýslunni frá áhuga bankans á kaupum á TM í tölvupósti. Þá hafi hún upplýst stjórnarformann og forstjóra Bankasýslunnar þann 20. júlí að ekki hafi komist á formlegar viðræður við Kviku banka vegna TM.
Formlegt söluferli á TM hjá Kviku hófst 17. nóvember. Bæði bankaráð Landsbankans og Bankasýslan sammælast um það að engin samskipti um TM hafi farið fram fyrr en í fyrsta lagi í desember.
Tilefni símtalsins óljóst
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, skrifaði um þau samskipti í bréfi til til fjármálaráðherra í síðustu viku; „Formaður bankaráðs Landsbankans telur sig hafa minnst á endurvakinn áhuga Landsbankans á að taka þátt í söluferlinu. Það á að hafa komið fram í óformlegu símtali til stjórnarformanns BR vegna launauppbótar starfsmanna í desember 2023, sem þegar hafði verið ákveðin.“
Helga Björk ítrekaði í viðtali við fréttastofu á föstudag að hún hafi upplýst Tryggva um að óskuldbindandi tilboð hafi verið lagt fram í símtalinu 20. desember.
„Við erum með þetta allt saman skráð. Ég er með símtalið við formann stjórnar Bankasýslunnar í mínum síma. Ég hringdi í hann 20. desember til að upplýsa hann um þetta óskuldbindandi tilboð,“ sagði Helga Björk.