Karen Kjartansdóttir og fjölskylda hennar hafa síðustu misseri aðstoðað pilt frá Palestínu sem er hér á Íslandi en er ekki með samþykkta fjölskyldusameiningu.
„En auðvitað í sömu þörf og aðrir að bjarga fjölskyldu sinni, hann er með móður, tvær systur og bróður á Gasa og þau hafa dvalið í Rafah undanfarið,“ segir Karen, sem kom frá Egyptalandi nú í nótt.

Henni hafi borist til eyrna fyrir helgi að verið væri að þrengja skilyrðin sem þurfi að uppfylla til að vera gjaldgengur á útgöngulista frá Gasa. Náinn ættingi þurfi nú að vera með í för til að fá fólk skráð.
„Þannig að við ákváðum að stökkva til með þriggja klukkustunda fyrirvara ég og sonur minn af því að við vildum ná að hafa systur móður hans með okkur á skrifstofunni til að gæta þess að við fengjum þessa skráningu. Það hafðist á sunnudaginn.“
Vonir hafi staðið til að fjölskyldan sem þau aðstoða kæmist yfir landamærin eftir tvær vikur. En biðin er að lengjast, að sögn Karenar. Hún áréttar mikilvægi þess að hjálpa þeim sem hægt er að hjálpa, eins og hópur Íslendinga hefur verið að gera síðustu vikur og mánuði.
„Þá held ég að hafi tekist að koma hingað til um 140 manns, setja þau á útgöngulistann, með þessari aðferð og nú er verið að reyna að nýta alla þá peninga sem hafa safnast hingað til, til að aðstoða fólk sem best og hreinlega gera sem mest gagn í þessum málum,“ segir Karen.
„Ég veit af [íslensku] fólki sem er nú í Egyptalandi og fékk fréttir í nótt að það væri verið að sprengja allt í kringum þær fjölskyldur sem það er að aðstoða,“ segir Karen Kjartansdóttir.