Þetta er árviss viðburður á Filippseyjum og vekur ávallt heimsathygli. Í þetta skiptið létu tíu menn bæði húðstrýkja sig og krossfesta. Hundruð fylgdust með krossfestingunum í morgun og fólk kom víða að. Varað er við myndefninu í klippunni að neðan.
„Við erum frá Póllandi sem er kaþólskt land. Við fögnum auðvitað líka páskunum en samt með öðrum hætti. Þó ekki með verri eða betri hætti. Við komum til að sjá hvaða merkingu páskar hafa í öðrum heimshluta,“ sagði Maciej Kruszewski, pólskur ferðamaður, sem var viðstaddur krossfestinguna.
Lét krossfesta sig í 35. sinn
Kaþólska kirkjan hefur ekki lagt blessun sína yfir þessi uppátæki og raunar fordæmt enda er hér um að ræða blöndu af bænagjörð kristinna manna og fillipseyskri alþýðutrú á fórnir.
Aðalleikarinn þetta árið er Ruben Enaje sem er 63 ára gamall en þetta er í 35. skiptið sem hann tekur þátt.
„Líkami minn verður sífellt meira veikburða. Ég veit ekki hvort þetta er síðasta sinn, hvort ég geri þetta aftur eða hvort þetta er í allrasíðasta sinn,“ sagði Enaje í dag.
Haldið upp á föstudaginn langa í Jerúsalem
Það er þó aðeins fámennur hópur kristinna manna sem gengur jafnlangt og þessir til að tilbiðja guð sinn á þessum degi. Víðast hvar koma trúaðir menn saman í guðsþjónustum og þrátt fyrir spennu og átök í landinu helga var haldið upp á daginn í Jerúsalem.
Pílagrímar gengu í morgun í gegnum gömlu borgina, leiðina sem Jesú er sagður hafa borið krossinn að Golgatahæð.