Fjárfestar tóku dræmt í skilaboð Alvotech um stóran sölusamning „á næstu vikum“

Skilaboð Alvotech um stöðuna í viðræðum vegna sölusamninga vestanhafs á stuttum kynningarfundi í hádeginu ollu nokkrum vonbrigðum meðal innlendra fjárfesta og féll hlutabréfaverð félagsins skarpt strax að afloknum fundi. Félagið segist vera á „lokastigi“ með að klára samning við einn stærsta söluaðilann í Bandaríkjunum vegna líftæknilyfjahliðstæðunnar Simlandi.
Tengdar fréttir

Fjárfestarnir sem veðjuðu á Alvotech – og eygja von um að hagnast ævintýralega
Þegar ljóst varð fyrir mánuði að samþykki fyrir markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir stærstu lyf Alvotech væri nánast í höfn áttu íslenskir lífeyrissjóðir samanlagt vel undir þriggja prósenta hlut í þessu langsamlega verðmætasta fyrirtæki í Kauphöllinni – og höfðu þá engir nýir sjóðir bæst í hluthafahópinn frá því að FDA setti félaginu stólinn fyrir dyrnar tíu mánuðum áður. Risastór veðmál sumra sjóðastýringarfélaga á Alvotech, með því að halda stöðu sinni við krefjandi markaðsaðstæður og jafnvel bæta við hana, hefur skilað sjóðum þeirra nærri hundrað prósenta ávöxtun síðustu mánuði á meðan önnur mátu áhættuna of mikla og losuðu um hlut sinn, eins og greining Innherja á umfangi innlendra fagfjárfesta sem eiga bréf í Alvotech skráð hér heima leiðir í ljós.

Telja að tekjurnar fari í um 50 milljarða og verði umfram spár greinenda
Samkvæmt afkomuáætlun sem stjórnendur Alvotech hafa gefið út er ráðgert að heildartekjur líftæknilyfjafélagsins geti á þessu ári orðið um 400 milljónir Bandaríkjadala, um fjórfalt meira en í fyrra, og mögulega tvöfaldast árið eftir. Þær áætlanir gætu tekið talsverðum breytingum á næstunni þegar Alvotech klárar sölusamninga í Bandaríkjunum en hin nýja tekju- og afkomuspá, sem markaðsaðilar hafa beðið eftir, er engu að síður nokkuð yfir væntingum greinenda.