Fjöldi bygginga hafa verið eyðilagðar eða orðið fyrir miklum skemmdum. Götur hafa verið fjarlægðar með jarðýtum, fjölbýlishús hafa verið jöfnuð við jörðu og skólar og sjúkrahús hafa skemmst verulega í átökum milli ísraelskra hermanna og Hamas-liða.
Fólk hefur þó snúið aftur um helgina og í morgun til að kanna stöðuna á húsum þeirra og reyna að bjarga verðmætum.
Einn viðmælandi AP fréttaveitunnar segir ástandið sérstaklega slæmt í miðborg Khan Younis. Hún sé óbyggileg vegna skemmda. Hann sagði hús sitt og hús nágranna sinna hafa verið jöfnuð við jörðu.
Hér að neðan má sjá myndefni sem tekið var í Nasser sjúkrahúsinu í Khan Younis.
Ísraelar segja Khan Younis hafa verið mikilvægt vígi Hamas-liða. Forsvarsmenn hersins segja þúsundir vígamanna hafa verið fellda í borginni og að skemmdir hafi verið unnar á umfangsmiklu neti jarðganga undir henni.
Sjá einnig: Varnarmálaráðherra Ísrael segir „eftirfylgniaðgerðir“ í undirbúningi
Stríðið, sem staðið hefur í yfir í rúma sex mánuði, hefur kostað að minnsta kosti 33 þúsund Palestínumenn lífið, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum Gasa, sem stýrt er af Hamas. Flestir af 2,3 milljónum íbúa svæðisins hafa þurft að flýja heimili sin og stór hluti Gasastrandarinnar er í rúst.
Annar íbúi Khan Younis sem ræddi við blaðamenn AP sagðist ekki hafa getað komst í íbúð sína á þriðju hæð húss í borginni. Stigagangurinn væri hruninn. Bróðir hennar gat þó klifrað upp í gegnum rústirnar og sótt föt fyrir börn hennar og aðrar eigur þeirra.
Enn einn sagði ekki lengur hægt að búa í Khan Younis. „Þeir skildu ekkert eftir hér.“
Netanjahú velt úr sessi án áhlaups á Rafah
Talið er að Ísraelar ætli sér næst að gera áhlaup á borgina Rafa, sem er syðsta borg Gasastrandarinnar en þangað hafa um 1,4 milljónir manna flúið frá því stríðið á Gasa hófst. Meira en helmingur allra íbúa Gasa hafa leitað sér skjóls í Rafah og hafa ráðamenn víða um heim miklar áhyggjur af mögulegu áhlaupi Ísraela á borgina.
Eins og fram kemur í grein AP gæti brotthvarfið frá Khan Younis létt á þrýstingnum á Rafah en fjölmargir sem flúið hafa borgina eiga ekki heimili þar lengur. Því til viðbótar er talið að mikið af ósprungnum sprengjum séu í Khan Younis.
Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa þrýst á Ísraela um að gera ekki áhlaup á Rafah en Benajmín Netanjahú, forsætisráðherra, finnur einnig fyrir þrýstingi heima fyrir. Ben Gvir, mjög svo hægri sinnaður ráðherra þjóðaröryggismála, lýsti því yfir í morgun að ef Netanjahú reyndi að enda stríðið án umfangsmikils áhlaups á Rafah, yrði honum velt úr sessi.