Tólf ára piltur lést og tvær jafnöldrur hans særðust alvarlega í skotárásinni í Viertola-skólanum í Vantaa, nærri Helsinki, á þriðjudag í síðustu viku. Pilturinn sem skaut þau sagði lögreglu að einelti sem hann varð fyrir hefði verið tilefni árásarinnar. Lögreglan telur sig nú hafa nokkuð nákvæma mynd af atburðunum, að sögn finnska ríkisútvarpsins YLE.
Einn kennari var í skólastofunni þar sem pilturinn skaut á börnin. Öðrum kennara sem kom að tókst að sannfæra piltinn um að yfirgefa stofuna og skólann. Marko Särkkä, yfirmaður rannsóknarinnar, sagði til fyrirmyndar hvernig kennararnir brugðust við af ábyrgð.
Skammbyssa sem pilturinn notaði við ódæðið er í eigu náins ættingja sem er þó ekki hluti af nánustu fjölskyldu hans. Ættinginn geymdi byssuna á viðeigandi hátt en lögreglan segir að pilturinn hafi tekið hana í leyfisleysi. Til rannsóknar er hvernig piltinum tókst að komast yfir byssuna.
Stúlkurnar tvær sem særðust eru enn á sjúkrahúsi, önnur þeirra þungt haldin. Lögreglan hefur náð að taka skýrslu af hinni stúlkunni.