„Förum aðeins yfir þá stöðu sem fráfarandi ríkisstjórn skilur eftir sig,“ sagði Kristrún meðal annars og rakti þá: Vextir háir — verðbólga mikil — og hömlulaus húsnæðismarkaður. Ófjármögnuð útgjöld upp á 80 milljarða næstu árin. Ófjármögnuð útgjöld vegna Grindavíkur.
Og hún hélt áfram að renna yfir „afrekin“ sem væru engin fjármálaáætlun, samgönguáætlun sem situr föst, framkvæmdastopp í orku- og samgöngumálum…
„Já, algjört framkvæmdastopp! Frá ríkisstjórn sem ætlaði að kenna sig við innviði.“
Stóra núllið
Kristrún kynnti það sem hún kallaði Stóra núllið frá 2017 eða þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við:
„Framkvæmdir við 0 ný jarðgöng á Íslandi — 0 nýjar virkjanir yfir 10 MW — og 0 ný virkjanaleyfi í gildi. Hvort sem litið er til virkjana sem nýta vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa. Þetta er sú staða sem fráfarandi ríkisstjórn skilur eftir sig — og sem þessi svokallaða nýja ríkisstjórn fær í arf.

Og nú er talað og talað og talað um einhverja stórsókn í orkumálum. En tekið skýrt fram að það sé engin stefnubreyting samt hjá þessari ríkisstjórn — og engar nýjar aðgerðir kynntar.“
Kristrún spurði hvað væri eiginlega hægt að segja? Sama væri með útlendingamálin þar sem ríkisstjórnin hafi séð um það alveg sjálf að skapa stærstu vandamálin með undanþágum, hringlandahætti og illa unnum lagafrumvörpum. Og nú er sagt að sé allt að fara að smella — án stefnubreytingar.
„Hvað er þá verið að gefa í skyn? Að fráfarandi forsætisráðherra hafi verið vandamálið? Eða er þetta kannski bara tómt tal hjá ríkisstjórninni — enn einu sinni — til að réttlæta þrásetu sína án árangurs?“
Að veita hver öðrum stöðuhækkun koll af kolli
Kristrún sagði þjóðina gera kröfu um árangur og það kalli á stefnubreytingu. En það sé ekki nóg að höfuð ríkisstjórnarinnar fari í forsetaframboð.
„Og að veita svo öðrum ráðherrum stöðuhækkun, koll af kolli — að því er virðist allra helst þeim sem hafa gert alvarlegustu afglöpin í sínum fyrri embættum.
Þetta er sama fólkið, með sömu stefnu í nýjum stólum.“
Ekkert hafi hins vegar breyst sem skipti fólkið í landinu nokkru máli.